Ulrik Wilbek er hættur starfi sínu hjá danska handknattleikssambandinu. Frá þessu greina danskir fjölmiðlar nú í morgunsárið. Wilbek, sem er íþróttastjóri danska sambandsins, hefur legið undir mikilli gagnrýni síðustu daga eftir að upplýst var að hann hefði viljað segja Guðmundi Þórði Guðmundssyni landsliðsþjálfara upp starfi á meðan á Ólympíuleikunum í Ríó stóð.
Danska karlalandsliðið stóð uppi sem Ólympíumeistari undir stjórn Guðmunar Þórðar.
Wilbek lagði inn uppsagnarbréf sitt til danska handknattleikssambandsins í gærkvöldi, eftir því sem TV2 greinir frá. Wilbek hefur unnið hjá sambandinu í 20 ár, lengst af sem landsliðsþjálfari, fyrst með kvennalandsliðið og síðar með karlana um níu ára skeið. Hann tók við starfi íþróttastjóra 2012 en hefur frá miðju ári 2014 eingöngu sinnt því starfi. Guðmundur Þórður varð eftirmaður Wilbeks í starfi landsliðsþjálfara karla og hefur lengi verið talið að Wilbek hafi öðrum fremur staðið á bak við ráðningu Guðmundar Þórðar.
Wilbek velti þeirri hugmynd upp við hóp leikmanna danska karlalandsliðsins að reka Guðmund Þórð strax eftir tapleik við Króata í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í Ríó. Hugmynd Wilbeks féll í grýtta jörð og einnig þegar hann endurvakti hugmynd sína daginn eftir sigur danska landsliðsins á Frökkum í úrslitaleik handknattleikskeppni Ólympíuleikanna. Þá þótti mörgum sem Wilbek talaði digurbarkalega við danska fjölmiðla daginn sem úrslitaleikinn fór fram með því að segja að hann hefði haft mörg tækifæri til þess að reka Guðmund Þórð úr starfi.
Danskir fjölmiðlar segja uppsögn Wilbeks ekki koma á óvart. Ljóst hafi verið að til uppgjörs kæmi eftir það sem á undan hefði verið gengið. Algjör trúnaðarbrestur hafi orðið á milli Wilbeks og Guðmundar sem útilokað hafi frekara samstarf þeirra á milli.
Dan Phillipsen, ritstjóri TV2 Sport í Danmörku, segir ekki ljóst að þessu stigi hvort uppsögn Wilbeks hafi áhrif á framtíð Guðmundar Þórðar sem landsliðsþjálfara. Vitað sé að nokkrir leikmenn landsliðsins hafi ekki verið sáttir við Guðmund og vinnubrögð hans. M.a. af þeim sökum hafi Wilbek fundað með nokkrum leikmönnum að Guðmundi fjarstöddum í Ríó. Fundir sem nú hafa dregið dilk á eftir sér. Guðmundur er samningsbundinn danska handknattleikssambandinu fram á mitt næst ár.
Phillipsen segir ennfremur að þótt Wilbek hafi verið sigursæll sem landsliðsþjálfari Dana, fyrst árum saman með kvennalandsliðið og síðar karlalandsliðið, þá hafi hann ekki náð sér á strik sem íþróttastjóri. Talsverð óánægja hafi ríkt í herbúðum kvennalandsliðsins sem ekki hafi batnað eftir að Wilbek gerði breytingar á þjálfarateymi þess fyrir fáeinum árum. Árangurinn hafi ekki verið góður og leikmenn hætt vegna óánægju með þjálfarann.