„Þetta var mjög dapurt“

Arnar Pétursson
Arnar Pétursson Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Arnar Pétursson, þjálfari karlaliðs ÍBV í handknattleik, var allt annað en sáttur með 26:26 jafnteflið gegn Fram í 2. umferð Olís-deildarinnar í kvöld en leikið var í Safamýri. Fram jafnaði á síðustu sekúndum leiksins.

„Þetta var mjög dapurt, alveg frá fyrstu mínútu. Síðari hálfleikurinn var varla betri en sá fyrri, við mættum einfaldlega ekki til leiks og féllum á elsta prófinu í bókinni, það að leyfa okkur að mæta hérna án þess að þurfa að hafa fyrir því,“ sagði Arnar við mbl.is. í dag.

Varnarleikur Eyjamann var slappur í dag og þá sá hinn 16 ára gamli Viktor Gísli Hallgrímsson við sóknarleik þeirra með frábærum vörslum.

„Það var afskaplega fátt til staðar í dag. Ef menn mæta ekki klárir, sama hvort menn ætla að spila vörn eða sókn, þá lenda þeir á vegg. Við lentum á vegg í fyrri hálfleik og við sáum það á varnarleik og sóknarleik, líka færanýtinguna. Það kemur ungur strákur í markið sem er að verja vel.“

„Við náðum okkur aldrei úr þessu og urðum yfirspenntir. Við fengum þrjú mörk í forystu en Framararnir mættu okkur aftur og fóru að snerta okkur. Við þoldum það illa í dag, sem sýnir svolítið hvernig menn voru mótiveraðir í þessu,“ sagði hann ennfremur.

„Þetta er eitthvað sem við verðum að læra af. Við verðum að vera meðvitaðir um það að við þurfum að mæta til leiks og þá erum við helvíti góðir en ef ekki þá verðum við alveg jafn lélegir,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert