„Þetta var hörkuleikur hjá okkur þangað til á síðustu mínútum þegar vörnin hætti að virka hjá okkur,“ sagði Elvar Örn Jónsson, leikmaður Selfoss, eftir öruggan fjögurra marka sigur nýliðanna á FH, 36:32, í Kaplakrika í kvöld í Olís-deild karla í handknattleik.
„Við lékum vel í 50 mínútur þar sem við vorum með tök á FH-ingunum en um leið og við slökuðum á þá nálguðust þeir enda með gott lið,“ sagði Elvar Örn sem átti góðan leik eins og fleiri leikmenn Selfoss að þessu sinni.
„Við höfum kortlagt FH-liðið mjög vel og mættum klárir í slaginn eftir að hafa tapað þremur leikjum í röð. Við vorum staðráðnir í að leggja allt í sölurnar að þessu sinni og vildum sýna mönnum að við eigum heima í þessari deild. Vissulega er ekkert gefið en ef við mætum af krafti og berjumst í hverjum leik þá getum við gert ýmislegt,“ sagði Elvar Örn Jónsson sem var næstmarkahæstur leikmanna Selfoss með sjö mörk.