Markaveisla í sigri Stjörnunnar

Telma Amado, ÍBV, reynir að stöðva Helenu Rut Örvarsdóttur hjá …
Telma Amado, ÍBV, reynir að stöðva Helenu Rut Örvarsdóttur hjá Stjörnunni í leik liðanna í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Stjarnan bar sigurorð af ÍBV í fimmtu umferð Olís-deildar kvenna, í TM-höllinni í dag, 40:30. Stjörnustelpur náðu strax yfirhöndinni í leiknum og létu hana aldrei af hendi.

Staðan í hálfleik var 21:14, heimastúlkum í vil og munaði þar miklu um stórleik Stefaníu Theodórsdóttur, sem fór hamförum í upphafi leiks.

Garðbæingar héldu áfram að spila vel í síðari hálfleik, þar sem Rakel Dögg Bragadóttir fór fyrir sínu liði, með mörgum glæsilegum mörkum. Þá átti Hafdís Lilja Torfadóttir einnig góðan leik í marki Stjörnunnar og þegar uppi var staðið, munaði 10 mörkum á liðunum. 

Markahæstar Stjörnustelpna voru Stefanía Theodórsdóttir  með 10 mörk, Rakel Dögg Bragadóttir með sjö mörk og Þorgerður Anna Atladóttir með fimm mörk.

Hjá ÍBV var Ester Óskarsdóttir markahæst með níu mörk, Sandra Erlingsdóttir kom þar skammt undan með átta mörk og Sandra Dís Sigurðardóttir skoraði síðan mörk.

Eftir leikinn er Stjarnan með sjö stig og lyfta sér upp fyrir ÍBV, sem eru áfram með sex stig.

Stjarnan 40:30 ÍBV opna loka
60. mín. Leik lokið Öruggur Stjörnusigur í TM-höllinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert