Hjartað segir mér þetta

Snorri Steinn Guðjónsson með silfurverðlaunin í Peking 2008, ásamt Ólafi …
Snorri Steinn Guðjónsson með silfurverðlaunin í Peking 2008, ásamt Ólafi Stefánssyni og Guðjóni Val Sigurðssyni. mbl.is/Brynjar Gauti

„Þetta var risaákvörðun og mjög erfitt að taka hana, sem kom mér reyndar alls ekkert á óvart. Þetta er búið að vera hluti af lífi manns í einhver 15 ár og þá er eðlilegt að maður ákveði sig ekki 1, 2 og 3,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson, sem er hættur í íslenska landsliðinu í handbolta eftir farsælan feril.

Sjá frétt mbl.is: Snorri Steinn hættur með landsliðinu

Snorri hefur verið leikstjórnandi landsliðsins um árabil og meðal annars tekið þátt í því að vinna silfurverðlaun á Ólympíuleikunum 2008 og bronsverðlaun á EM 2010. Hann á að baki 257 A-landsleiki og hefur skorað í þeim 846 mörk. Nú lætur þessi 35 ára gamli leikmaður Nimes í Frakklandi hins vegar gott heita með landsliðinu:

„Það er svo sem ekki einhver ein ástæða fyrir þessu. Auðvitað var það alltaf markmiðið hjá mér, og örugglega fleirum, að komast á þessa blessuðu Ólympíuleika í sumar og það hefði verið mjög fallegur endir. Svo varð ekki. Það er svolítið síðan maður fór að leiða hugann að þessu. Hjartað segir mér að þetta sé fínn tímapunktur til að stíga til hliðar. Það er engin dramatík í því svo sem. Núna er bara nýtt tímabil að hefjast, og nýtt tímabil hjá landsliðinu, og því er þetta kannski ágætis tímapunktur,“ sagði Snorri.

Snorri er orðinn 35 ára gamall en spilar stórt hlutverk hjá Nimes í einni sterkustu deild heims, og hefði væntanlega átt víst sæti í landsliðshópi Geirs Sveinssonar á HM í Frakklandi í janúar. Hann segist ekki vera að draga sig til hlés úr landsliðinu nú til þess að hlífa líkamanum við álagi:

„Það er ekkert álag á mér hér þannig séð, við spilum einn leik í viku og ég er í þrusuformi. Líkamlegt atgervi er langt frá því að vera einhver ástæða fyrir þessari ákvörðun. En það þarf fleira til. Það kostar líka sitt að vera landsliðsmaður, er gríðarlega krefjandi og þetta er búinn að vera langur tími. Mér fannst þetta vera tímapunkturinn hjá mér. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ég hef getuna til að spila áfram í landsliðinu. Ég hefði farið létt með það, ef þú spyrð mig, en það getur verið að aðrir séu ósammála því. Þetta varð hins vegar niðurstaðan,“ sagði Snorri.

„Ég er búinn að vera í heilmiklu sambandi við Geira [Geir Sveinsson]. Við töluðum fyrst saman í haust og ég sagði honum strax hvernig hugurinn stæði. Á endanum varð maður svo að taka ákvörðun, og þetta varð niðurstaðan. Það er ekki annað að gera en að standa með henni og svo verður tíminn að leiða í ljós hvernig mér á eftir að líða þegar landsliðið er að spila og svona,“ sagði Snorri.

Nánar er rætt við Snorra í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

Snorri Steinn skorar gegn Rússum á EM 2010, þar sem …
Snorri Steinn skorar gegn Rússum á EM 2010, þar sem Ísland fékk bronsverðlaun. mbl.is/Kristinn
Snorri Steinn í leik gegn Króötum á EM í Póllandi …
Snorri Steinn í leik gegn Króötum á EM í Póllandi í janúar, sem reyndist hans síðasta stórmót. Ljósmynd/Foto Olimpik
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka