Selfyssingar unnu hreint út ótrúlegan sigur á ÍBV í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. Lokatölur í Vallaskóla urðu 38:32.
Eyjamenn höfðu frumkvæðið framan af leiknum og leiddu 7:9 þegar þrettán mínútur voru liðnar. Þá kom gott áhlaup hjá heimamönnum sem skoruðu níu mörk gegn þremur á tíu mínútna kafla og breyttu stöðunni í 16:12. Forskot Selfoss var fimm mörk í hálfleik, 20:15.
Selfyssingar slökuðu ekkert á klónni í upphafi seinni hálfleiks og náðu níu marka forskoti þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar. Þá tók Theodór Sigurbjörnsson til sinna ráða og raðaði inn mörkunum fyrir Eyjamenn. Ótrúleg sveifla til baka og ÍBV jafnaði, 32:32, þegar rúmar fimm mínútur voru eftir. Þá var kraftur Eyjamanna á þrotum. Helgi Hlynsson skellti í lás í Selfossmarkinu og heimamenn skoruðu síðustu sex mörk leiksins.
Guðni Ingvarsson skoraði 13 mörk fyrir Selfyssinga og Einar Sverrisson 8, en hann átti ófáar stoðsendingar inn á Guðna á línunni. Helgi Hlynsson varði 21 skot í marki Selfoss.
Theodór Sigurbjörnsson skoraði 13/4 mörk fyrir ÍBV, þar af tíu í seinni hálfleik. Grétar Eyþórsson kom næstur honum með 6 mörk. Andri Ísak Sigfússon varði 9 skot fyrir ÍBV.