Fram er áfram taplaust í Olís-deild kvenna í handknattleik eftir sigur á ÍBV, 20:17, í Framhúsinu í dag í sjöundu umferð. Fram var með yfirburði í fyrri hálfleik og var fimm mörkum yfir, 11:6, að honum loknum og hafði forskot framan af síðari hállfeik. ÍBV-liðið lagði hinsvegar ekki árar í bát og gerði kröftugt áhlaup þegar á leið síðari háflleik og minnkaði muninn í eitt mark í tvígang undir lokin. Nær komust Eyjakonur ekki og Framliðið fagnaði sigri og áframhaldandi veru í efsta sæti deildarinnar.
Fyrsti stundarfjórðungur fyrri hálfleiks var jafn en leiðir skildi upp úr því. Framliðið varð manni fleira um skeið og komst þá tveimur mörkum yfir, 7:5. ÍBV-liðinu tókst að ekki að brúa bilið, þvert á móti jók Fram við forskot sitt og var fimm mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 11:6. Munurinn hefði hæglega getað verið meiri því Erla Rós Sigmarsdóttir varði m.a. tvö vítaköst Framara auk þess sem nokku opin færi í báðum hornum fóru forgörgðum hjá Safamýrarliðinu. Sóknarleikur ÍBV var slakur í fyrri hálfleik. Skot geiguðu auk þess sem liðið tapaði boltanum margoft á einfaldann hátt s.s. eftir að dæmt var skref og tvígríp. Það segir meira en mörg orð að ÍBV skoraði aðeins eitt mark á síðustu 16 mínútum fyrri hálfleiks.
Sóknarleikur Fram hikstaði talsvert í byrjun síðari hálfleiks. Framliggjandi 5/1 vörn ÍBV sló Framara út af laginu auk þess sem Erla Rós Sigmarsdóttir varði áfram vel í markinu. Eyjaliðinu tókst einnig að ljúka sóknum sínum betur en áður og loka þar með fyrir hraðaupphlaup. Upp úr miðjum hálfleik var staðan, 15:11, Fram í vil og ellefu mínútum fyrir leikslok var munurinn kominn niður í þrjú mörk,16:13, og talsverð spenna hlaupinn í leikinn. Forskot Fram fór niður í eitt mark, 16:15, og 17:16, þegar sex mínútur voru til leiksloka. ÍBV-liðið vantaði herslumuninn upp á að jafna metin. Það tókst aldrei. Fram náði þriggja marka forskoti, 19:16, og hélt sjó til leiksloka.
Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.