Akureyri krækir í Úkraínumann

Sverre Andreas Jakobsson, þjálfari Akureyrar, hefur krækt í úkraínskan landsliðsmann.
Sverre Andreas Jakobsson, þjálfari Akureyrar, hefur krækt í úkraínskan landsliðsmann. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Akureyri handboltafélag hefur krækt í úkraínska landsliðsmanninn Igor Kopyshynskyi og skrifað undir samning við hann til loka þessarar leiktíðar, eftir því sem næst verður komist. Kopyshynskyi hefur verið undir smásjánni hjá Sverre Jakobssyni, þjálfara Akureyrar, frá því síðla sumars en hann lék með liðinu nokkra æfingaleiki áður en Íslandsmótið hófst og æfði einnig með liðinu um skeið.

Greint er frá komu Kopyshynskyi á félagsskiptavef HSÍ en þar kemur fram að hann hafi fengið leikheimild frá með deginum í dag en þá er síðasti dagur félagsskipta á þessu ári í handboltanum hér heima. Kopyshynskyi leikur í vinstra horni.

Auk þess má nefna að Þórir Ólafsson, fyrrverandi landsliðsmaður og atvinnumaður í handbolta, hefur fengið félagsskipti yfir í Selfoss frá Þrótti Vogum en með síðarnefnda liðinu lék Þórir á dögunum gegn Gróttu í bikarkeppninni. 

Heimir Örn Árnason hefur gengið til liðs við Hamrana í 1. deild en hann spilaði líka umræddan bikarleik með Þrótti úr Vogum.

Þá hefur markvörðurinn Einar Ólafur Vilmundarson ákveðið að hafa félagsskipti yfir til Selfoss frá Haukum en fyrr í dag var greint frá að Grétar Ari Guðjónsson, markvörður, sem hefur verið á láni hjá Selfoss frá Haukum væri á leið Hauka á nýjan leik. Einar Ólafur tekur stöðu hans hjá Selfoss og verður ekki lánaður á milli félaganna heldur mun Einar Ólafur hafa varanleg félagsskipti til nýliðanna í Olís-deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert