Íslenskur sigur í háspennuleik

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik sigraði Tékka, 25:24, í fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2018 þegar þjóðirnar mættust í Laugardalshöllinni í kvöld. Um sannkallaðan háspennuleik var að ræða þar sem úrslitin réðust á lokasekúndunum.

Mikið jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og baráttan þeim mun meiri. Í stöðunni 4:3 sigu Tékkar hins vegar fram úr og skoruðu fjögur mörk í röð. Staðan 7:4 fyrir Tékkum þegar stundarfjórðungur var liðinn og íslenska liðið aðeins varið eitt skot.

Geir Sveinsson tók þá leikhlé fyrir Ísland sem svínvirkaði. Strákarnir skoruðu fimm mörk í röð í sama mund og Björgvin Páll Gústavsson hrökk í gang í markinu. Staðan 9:7 og íslenska liðið hélt frumkvæðinu fram að leikhléi. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 12:10 fyrir Ísland.

Tékkar komu miklu ákveðnari til leiks eftir hlé og þeir náðu 5:1 kafla strax í upphafi hans. Íslenska liðið náði að jafna á ný í stöðuna 15:15. Eftir það hélt jafnræðið áfam, Tékkar höfðu yfirhöndina en íslenska liðið jafnaði ávallt jafn harðan. Þegar tíu mínútur voru eftir var staðan jöfn, 21:21, og spennan mikil sem fyrr.

Þegar fimm mínútur eftir kom Arnór Þór Gunnarsson Íslandi yfir, 24:23, í fyrsta sinn síðan í upphafi síðari hálfleiks. Ef hafði verið spenna áður var hún ekkert í líkingu við það sem nú tók við. Aron Pálmarsson kom Íslandi tveimur mörkum yfir þegar þrjár mínútur voru eftir, en Tékkar minnkuðu muninn jafn harðan.

Þegar hálf mínúta var eftir var staðan 25:24 fyrir Íslandi og Tékkar tóku leikhlé. Tékkar stilltu upp í sókn en Aron Pálmarsson fiskaði ruðning þegar þrjár sekúndur voru eftir. Íslenskur sigur staðreynd, 25:24, í sannkölluðum háspennuleik.

Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur Íslands í leiknum með sex mörk. Björgvin Páll Gústavsson varði ellefu skot í markinu. Næsti leikur Íslands er á laugardag þegar liðið mætir Úkraínu ytra. Úkraína tapaði fyrir Makedóníu í hinum leik riðilsins í kvöld, 27:21.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is. Nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun en viðtöl birtast hér á vefnum síðar í kvöld.

Ísland 25:24 Tékkland opna loka
60. mín. 50 sekúndur eftir. Ísland í sókn. Höndin komin upp.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert