Grótta vann Val í spennuleik – jafnt í Árbæ

Lovísa Thompson var markahæst í liði Gróttu í dag.
Lovísa Thompson var markahæst í liði Gróttu í dag. mbl.is/Golli

Grótta gerði góða ferð á Hlíðarenda og sigraði Val, 22:21, í Olís-deild kvenna í handknattleik í dag. Íslandsmeistarar Gróttu eru með 13 stig í 6. sæti en Valur með stigi meira í 3. sæti.

Gestirnir voru yfir að loknum fyrri hálfleik, 13:11, og lönduðu að lokum dýrmætum eins marks sigri. Lovísa Thompson var markahæst gestanna með 6 mörk en Diana Satkauskeite skoraði 8 mörk fyrir Val.

Fylkir og ÍBV skildu jöfn, 27:27, í Fylkishöllinni. Eins og tölurnar gefa til kynna var leikurinn jafn og spennandi en heimastúlkur höfðu eins marks forystu að loknum fyrri hálfleik, 16:15.

Thea Imani Sturludóttir var markahæst Árbæinga með 9 mörk. Ester Óskarsdóttir og Ásta Björk Júlíusdóttir skoruðu 7 mörk hvor fyrir ÍBV. Eyjastúlkur eru í 5. sæti deildarinnar með 13 stig en Fylkir í því 8. og neðsta með 6 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert