Birkir Benediktsson leikur ekki með handknattleiksliði Aftureldingar næstu sex vikur. Í versta falli verður hann ekkert meira með á keppnistímabilinu. Þetta staðfesti Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi.
Birkir, sem stendur á tvítugu, brotnaði á þumlafingri vinstri handar í kappleik við Selfoss 10. nóvember. Birkir er örvhentur.
Auk þess fór fingurinn úr lið og liðband slitnaði. Birkir fór í aðgerð í framhaldinu. Talið var að hann yrði frá keppni fram í janúar en gæti þá byrjað æfingar og virtist útlið vera gott þegar kom fram yfir áramótin þrátt fyrir að brotið hefði verið slæmt, að sögn Einars Andra.
„Í janúar fór Birkir með fingurinn í röntgenmyndatöku. Niðurstaðan var sú að hann væri vel gróinn sára sinna, gæti losnað við gifsið og byrjað að æfa upp úr miðjum janúar eða í byrjun febrúar. Birkir byrjaði að æfa af krafti í byrjun febrúar en var aldrei verkjalaus og hélt áfram í meðferð hjá sjúkraþjálfara. Síðan leið og beið. Honum skánaði ekkert og fór í sneiðmyndatöku í dag. Í henni kom fram að beinið sem brotnaði er ekki fullgróið. Þar af leiðandi verður Birkir frá æfingum í einhverjar vikur, að minnsta kosti þangað til að hann fer í næst í skoðun eftir sex vikur. Framhaldið hjá honum er alveg óljóst á keppnistímabilinu,“ sagði Einar Andri.
Nánar er rætt við Einar Andra í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.