Verður barátta fram í síðasta leik

Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar.
Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Skyttur Haukanna hittu mjög vel allan leikinn og það er erfitt að verjast þeim í þessum ham,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir fjögurra marka tap, 34:30, fyrir Haukum í Olís-deild karla í handknattleik í Schenker-höllinni á Ásvöllum í kvöld.

„Mér fannst sóknarleikurinn góður hjá okkur lengst af leiksins en markvarsla og vörn var ekki fyrir hendi að þessu sinni. Auk þess vorum við klaufar á upphafskafla síðari hálfleiks þegar við vorum tveimur fleiri. Þá fórum við meðal annars með tvö dauðafæri. Þegar á leið leikinn þá munaði litlu að við kæmust inn í leikinn en því miður þá vantaði herslumuninn upp á. Ég tek það samt ekki af Haukum að þeir voru mjög góðir að þessu sinni,“ sagði Einar. „En sóknarleikurinn var góður. Okkur hefur ekki oft tekist að skora 30 mörk í leik í vetur og þegar það loksins gerist þá eru það vonbrigði að vinna ekki leikinn.“

Liðin eru á hvort sínum enda stöðutöflunnar, Haukar á toppnum, en Stjarnan í hópi fjögurra liða sem eru neðst með fimmtán stig hvert.  Einar segir að baráttan haldi áfram hjá Stjörnunni. Hann reiknar með að baráttan um að forðast fall annars vegar og um að ná áttunda sætinu og komast í úrslitakeppnina standi yfir allt fram í síðustu umferð deildakeppninnar. „Það þýðir ekkert að horfa á stöðutöfluna. Við verðum að einbeita okkur að eigin leik og bæta það sem bæta þarf. Ég sá framfaramerki á sóknarleiknum að þessu sinni en því miður þá brást varnarleikurinn og markvarslan alveg, en þessi tvö atriði hafa verið okkar aðal á keppnistímabilinu. Það eru vonbrigði,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert