„Dagsplanið að keyra á þá frá upphafi”

Stefán Árnason, þjálfari Selfoss.
Stefán Árnason, þjálfari Selfoss. mbl.is/Golli

Það var létt yfir Stefáni Árnasyni á bernskuslóðum þegar blaðamaður náði af honum tali eftir fallbaráttuslag í KA-heimilinu í kvöld en leiknum lauk með sigri Selfyssinga, 26:24. Selfyssingar byrjuðu leikinn af fítonskrafti og keyrðu hreinlega yfir Akureyringa í upphafi leiks.

„Við vorum búnir að ákveða það að mæta hér með mjög sókndjarfa nálgun á þennan leik, vera „aggressívir“ frá fyrstu mínútu og mæta þeim framarlega á vellinum. Við ætluðum að reyna að keyra á þá, ef við ynnum boltann, og það gekk vel í upphafi leiks. Við unnum marga bolta og uppskárum mörg ódýr mörk í kjölfarið. Það virkaði vel og gaf okkur gott veganesti.“

„Svo í seinni hálfleik spilum við gífurlega góða vörn, sex á móti sex, í raun mun betri vörn en í fyrri hálfleik. Mörkin sem þeir skora á okkur í seinni hálfleik voru mörk sem þeir skora þegar við erum manni færri. Þegar við náum að stilla upp í okkar varnarleik vorum við mjög öflugir. Þeir setja svo aukamann inn á í lokin og við fáum fullt af brottvísunum. Okkur tókst þó að sigla þessu í höfn, enda markvarslan hjá okkur til fyrirmyndar allan leikinn. Mér fannst við klókir undir lokin og það var eflaust það sem kláraði leikinn að lokum fyrir okkur.“

Spurður um framhaldið og þá baráttu sem fram undan er, hafði Stefán þetta að segja:

„Við þurfum að taka tvo sigra í viðbót í þessum fjórum leikjum sem eftir eru. Við erum í baráttu fyrir lífi okkar áfram og á meðan liðin í kringum okkur eru að ná sér í stig verðum við að halda ótrauðir áfram þangað til yfir lýkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert