Hrafnhildur Hanna sleit krossband

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir (fyrir miðju) meiddist í landsleik gegn Hollandi …
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir (fyrir miðju) meiddist í landsleik gegn Hollandi á föstudag. mbl.is/Golli

„Ég fékk niðurstöðurnar úr myndatöku í hádeginu og það er ljóst að ég er með slitið krossband,“ sagði Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, landsliðskona í handbolta og einn albesti leikmaður Olís-deildarinnar, við mbl.is í dag.

Hrafnhildur Hanna sleit fremra krossband í vinstra hné, í landsleik gegn Hollandi fyrir helgi, og má reikna með að hún verði frá keppni í 9-12 mánuði. Hún mun því varla spila fleiri leiki með Selfossi á þessu ári, og verður að fresta áformum sínum um að fara utan í atvinnumennsku.

„Þetta er pínu áfall og svekkjandi, en svona er lífið þegar maður er í íþróttum. Það þurfa allir að taka út sinn skammt af meiðslum. Maður lítur bara á þetta sem verkefni sem ég þarf að leysa og vonandi kem ég sterkari til baka,“ sagði Hanna, eins og hún er jafnan kölluð.

„Ég hef sloppið mjög vel á mínum ferli, handarbrotnaði reyndar einu sinni en það tók bara örfáar vikur. Annars hef ég bara varla misst af leik, en það kemur alltaf að því,“ sagði Hanna.

Þarf að bíða með atvinnumannsdrauminn

Erlend félög hafa sýnt Hönnu áhuga enda hefur hún farið á kostum hér heima. Hún er langmarkahæst í Olís-deildinni í vetur með 174 mörk, 34 mörkum fleiri en næsti leikmaður, og hefur orðið markadrottning deildarinnar síðustu tvö ár auk þess að vera kjörin besti sóknarmaðurinn. Nú þarf hún væntanlega að bíða með atvinnumennskuna:

„Það var svona hugmyndin [að fara út í sumar] og ég var farin að skoða það, en ætli það verði nokkuð af því á þessu ári? Það verður bara að bíða betri tíma, vonandi. Það var ekkert ákveðið í þeim efnum og núna verður maður bara að sjá til hvað gerist í framtíðinni,“ sagði Hanna.

Selfoss þarf að bjarga sér án besta leikmannsins

Meiðsli Hönnu eru ekki bara áfall fyrir hana sjálfa heldur einnig íslenska landsliðið og Selfoss. Selfyssingar eru væntanlega á leið í umspil við lið úr 1. deild um sæti í Olís-deildinni á næstu leiktíð, og Hanna þarf nú að treysta á liðsfélagana:

„Ég hef fulla trú á þeim. Það kemur bara maður í manns stað og vonandi sýna þær hvað í þeim býr, eins og þær hafa oft gert áður,“ sagði Hanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert