Erum ekkert að pæla í falldraugnum

Gunnar Andrésson, þjálfari Gróttu.
Gunnar Andrésson, þjálfari Gróttu. Ljósmynd/Eva Björk Ægisdóttir

„Við hittum einfaldlega á afar slakan dag og FH spilaði að sama skapi virkilega vel og því fór sem fór. Það var einungis í upphafi leiks við sem náðum að leika af fullri getu og fórum að fullu eftir því sem upp var lagt,“ sagði Gunnar Andrésson, þjálfari Gróttu, eftir 28:20-tap liðsins gegn FH í 25 umferð Olísdeildar karla í handbolta í dag.

„Við töpuðum boltanum ansi oft verulega klaufalega sem varð til þess að FH skoraði auðveld mörk í kjölfarið. FH náði góðri forystu í upphafi seinni hálfleiks sem við náðum því miður ekki að brúa. Við þurfum að læra af þessum leik og koma betur stemmdir til leiks í næsta leik,“ sagði Gunnar enn fremur.

Grótta er enn í baráttu um að forðast fall úr deildinni, en fram undan er fallbaráttuslagur við Stjörnuna. Grótta bjargar sér frá falli í þeim leik, en Stjarnan sem er í næstneðsta sæti deildarinnar jafnar Gróttu hins vegar með sigri.

„Við erum ekkert að pæla í því hvort við séum í fallbaráttu eða ekki. Við erum bara að einbeita okkur að næsta leik og því að tryggja okkur fjögur stig í síðustu tveimur leikjum liðsins. Við fáum loksins tvo heimaleiki eftir fjóra útileiki í röð. Stefnan er sett á að gera betur en í dag í næsta leik og klára mótið með sóma,“ sagði Gunnar um framhaldið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert