Framarar eru komnir í undanúrslit Íslandsmóts karla í handknattleik eftir sigur á Haukum eftir ótrúlegan tvíframlengdan leik og vítakastkeppni í oddaleik liðanna á Ásvöllum í dag, 47:45. Fram er komið í undanúrslit þar sem liðið mætir Val en Íslandsmeistarar Hauka eru komnir í sumarfrí.
Framarar unnu fyrsta leik liðanna 33:32 eftir framlengdan leik á Ásvöllum fyrir sex dögum. Hakar svöruðu fyrir sig með 28:24-sigri í Safamýri á þriðjudaginn og þess vegna mættust liðin í oddaleik nú síðdegis.
Heimamenn voru skrefi á undan fyrri hluta fyrri hálfleiks í dag og komust meðal annars í 7:4. Var það að miklu leyti vegna þess að gestirnir léku með sjö menn í sókn og tóku markmannninn út af á meðan þeir sóttu. Haukar skoruðu þrjú mörk í röð þegar Fram tapaði boltanum og enginn var í markinu hjá þeim.
Framarar hættu þá að leika með sjö menn í sókninni, skoruðu fjögur mörk í röð og komust yfir í fyrsta skipti í stöðunni 8:7
Eftir það skiptust liðin á að skora og gestirnir frá Safamýri voru með eins marks forystu að loknum fyrri hálfleik, 14:13.
Gestirnir hófu seinni hálfleikinn af krafti og náðu fljótt þriggja marka forskoti, 17:14. Eftir það skiptust liðin á að skora og munurinn þrjú til fjögur mörk.
Haukar unnu forskot gestanna upp og lokamínúturnar voru æsispennandi. Mattías Daðason kom Fram yfir þegar mínúta var eftir af leiknum en Daníel Ingason jafnaði metin í 31:31 þegar 40 sekúndur voru eftir.
Þorgeir Davíðsson kom Fram yfir þegar um 15 sekúndur lifðu leiks en tíminn sem var eftir dugði Adam Hauki Baumruk til að jafna metin. Framlengja þurfti að knýja fram úrslit.
Liðin skiptust á að skora í fyrri hluta framlengingarinnar en Andri Þór Helgason jafnaði metin í 34:34 á síðustu sekúndu fyrri hlutans. Enn var allt hnífjafnt eftir seinni hluta framlengingar og ljóst að aðra framlengingu þyrfti að knýja fram úrslit.
Seinni framlengingin var einnig æsispennandi og enn var allt jafnt að henni lokinni en Heimir Óli Heimisson tryggði Haukum vítakastkeppni þegar hann jafnaði metin fjórum sekúndum fyrir leikslok.
Þorgeir Bjarki Davíðsson skoraði úr fimmta víti Framara og tryggði þeim sæti í undanúrslitum en Íslandsmeistarar Hauka eru úr leik.