„Það var algjört spennufall hjá mínum mönnum. Þeir voru hátt uppi og ætluðu sér of mikið og réðu ekki neitt við neitt,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, eftir átta marka tap, 31:23, fyrir Val í fyrsta leika liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í handknattleik karla í Framhúsinu í kvöld.
Framarar áttu undir högg að sækja frá upphafi til enda ef undan er skilinn kafli undir lok fyrri hálfleiks. „Við töpuðum boltanum 14 sinnum, okkur tókst varla að snerta Valsmenn í vörninni í fyrri hálfleik og eftir það var á brattann að sækja,“ sagði Guðmundur Helgi og bætti við að um leið og vottaði fyrir varnarleik undir lok fyrri hálfleiks hefði leikurinn jafnast.
„Menn voru ólíkir sjálfum sér. Þeir hafa ekki gert svona mörg mistök í sóknarleiknum allt keppnistímabilið eins og strákarnir gerðu í kvöld. Sendingar samherja á milli heppnuðust ekki og við töpuðum boltanum mjög oft í hraðaupphlaupum eða á einfaldan hátt.
Ekki bætti úr skák að við vorum eins og sprungin blaðra í upphafi síðari hálfleiks. Þar með virtist aldrei vera möguleiki á að snúa taflinu við eða að skapa spennu í leiknum,“ sagði Guðmundur Helgi sem reyndi hvað hann gat að hleypa lífi í sína menn allt til síðustu mínútu leiksins.
„Spennan var bara of mikil og hún fór í hausinn á leikmönnum. Það var kannski ekki óeðlilegt í þessari flottu umgjörð og stemningu sem hér var.
Við erum hins vegar ekki hættir þótt fyrsta lotan hafi tapast. Leikurinn stendur í fimm lotur. Það eru enn fjórar eftir,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, ákveðinn.