Valsmenn eru úr leik í Áskorendakeppni Evrópu í handknattleik eftir níu marka tap, 32:23, fyrir Potaissa Turda í seinni viðureign liðanna í Turda í dag. Turdamenn voru yfir allan leikinn en fengu til þess góða aðstoð frá tékknesku dómarapari sem með frammistöðu sinni var handknattleiksíþróttinni til skammar. Valur tapaði samtals með einu marki, 54:53. Segja má að Valsmenn hafi verið flautaðir úr keppni.
Staðan í hálfleik var 16:9, Turda í vil. Turda leikur þar með til úrslita við Sporting Lissabon í Áskorendakeppninni. Valsmenn geta borið höfuðið hátt. Þeir máttu ekki við margnum að þessu sinni. Undir aðra eins dómgæslu getur ekkert lið búið sig undir.
Heimamenn byrjuðu strax af miklum krafti og léku m.a. varnarleikinn alveg fram að miðju. Þeir voru komnir með tveggja marka forskot eftir tíu mínútur, 5:3, en þá höfðu þrjú opin færi farið í súginn hjá leikmönnum Vals. Þegar kom fram yfir 10. mínútu var ljóst að ekki var allt með felldu. Dómgæslan var æði misjöfn, ekkert samræmi var í henni og boltinn dæmdur af Valsmönnum fyrir margar og afar óljósar sakir. Munurinn breyttist fljótt og eftir 20 mínútur var forskot Turda orðið sex mörk, 12:6. Áfram hélt munurinn að aukast, ekki fyrir ótrúlega dómgæslu á tíðum þar sem ruðningur, skref og lína voru dæmd á Valsliðið meðan allt annað var upp á teningnum hinum megin vallarins. Heimamenn fengu engan brottrekstur í fyrri hálfleik þrátt fyrir að hafa afar grófir á köflum í sínum leik.
Ljóst var snemma leiks að Valsmenn voru að glíma við fleiri andstæðinga en þá sjö sem voru inni á leikvellinum auk líflegra og skemmtilegra áhorfenda. Gamall draugur úr Evrópukeppninni virtist vaknaður. Draugarnir voru að þessu sinni frá Tékklandi.
Valsmenn náðu að minnka muninn niður í fimm mörk í síðari hálfleik en þegar þeir voru farnir að nálgast óþægilega og ljóst varð þeir myndu ná 23 marka múrnum með áframhaldandi leik gripu dómarar leiksins aftur í taumana, réttara sagt bara annar því hinn dæmdi ekkert í leiknum, og dæmdi á hvað eina sem honum datt í hug án þess að nokkurt væri samræmi hinum megin vallarins.
Vissulega mátti ýmislegt fara betur í leik Valsliðsins að þessu sinni, ekki síst fóru nokkur góð marktækifæri forgörðum, vörn og markvarslan gat verið betri, ekki síst í fyrri hálfleik. En þegar á leið leikinn var ljóst að maðkur var í mysunni.