Blaðran sprakk hjá okkur

Viktor Gísli Hallgrímsson, hinn 16 ára gamli markvörður Fram, hefur …
Viktor Gísli Hallgrímsson, hinn 16 ára gamli markvörður Fram, hefur slegið í gegn á keppnistímabilinu. Hann var vonsvikinn eftir tapið fyrir Val í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum greinilega ekki búnir að jafna okkur eftir sigrana á Haukum í átta liða úrslitum. Það er kannski eðlilegt að vissu leyti þegar svona ungur hópur á í hlut,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, eftir að lið hans féll úr keppni á Íslandsmótinu í handknattleik í kvöld eftir þriðja tapleikinn fyrir Val í undanúrslitum, 31:21.

„Þessir leikir fara í reynslubankann hjá okkur. Það var gaman að taka þátt í úrslitakeppninni. Leikirnir voru flotti og umgjörðin mjög góð. Af þessu öllum saman drögum við okkur lærdóm og komum sterkari til baka,“ sagði Guðmundur Helgi.

„Í 40 mínútur í þessum leik sýndum við hvers við erum megnugir eftir að tveir fyrstu leikirnir voru langt frá því að vera góðir af okkar hálfu, voru hálfgert slys. Nú sýndum við hvað við getum þangað til við misstum mann af leikvelli. Þá lentum við fimm mörkum undir á skömmum tíma. Þar með sprakk blaðran hjá okkur. Það var erfitt að snúa við blaðinu verandi fimm mörkum undir. Ég skil það mjög vel,“ sagði Guðmundur Helgi sem hlakkar til næsta keppnistímabils og undirbúningsins vegna þess en hann tók seint við liðinu á síðasta sumri og bar undirbúningurinn þess merki.

„Maður er súr núna en þegar tímabilið verður gert upp þá verðum við sáttir. Það verður frábært að taka þátt í undirbúningi fyrir næsta keppnistímabil. Ég náði því ekki í fyrra en vænti þess að geta sett meira mark á liðið fyrir vikið auk þess sem allir verða árinu eldri og reynslunni ríkari,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari karlaliðs Fram í handknattleik.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert