Erfið staða eftir tap í Skopje

Íslenska karlalandsliðið í handbolta er í erfiðri stöðu í undankeppni EM eftir tap gegn Makedóníu í Skopje í kvöld, 30:25. Ísland skoraði ekki mark á síðustu sjö mínútum leiksins, eftir að staðan hafði verið 26:25.

Makedónía og Úkraína eru þar með efst í riðlinum með 4 stig hvort, en Ísland og Tékkland með 2 stig, þegar þrjár umferðir af sex eru búnar. Næsti leikur Íslands er einnig gegn Makedóníu, í Laugardalshöll á sunnudaginn, og þann leik verður íslenska liðið hreinlega að vinna. Ísland mætir svo Tékklandi á útivelli og Úkraínu á heimavelli í júní, í lokaleikjunum. Aðeins tvö efstu lið riðilsins eru örugg um sæti á EM, en 3. sætið dugar í einum af undanriðlunum sjö.

Aron Pálmarsson og Guðjón Valur Sigurðsson skoruðu fyrstu mörk leiksins en eftir það hafði Makedónía frumkvæðið í fyrri hálfleik. Sóknarleikur heimamanna gekk mjög smurt þar sem skyttur liðsins komust í góð skotfæri, og ef gengið var út í þær opnaðist of auðveldlega svæði inni á línunni. Kiril Lazarov fór á kostum og skoraði átta mörk í fyrri hálfleiknum, þar af þrjú úr vítum sem línusendingar hans skiluðu.

Ólafur Guðmundsson stekkur upp fyrir framan vörn Makedóníu í leiknum …
Ólafur Guðmundsson stekkur upp fyrir framan vörn Makedóníu í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Robert Spasovski

Íslendingar spiluðu langar sóknir og þær þúsundir stuðningsmanna Makedóníu sem fylltu Boris Trajkovski höllina sköpuðu gríðarlegan hávaða þegar sóknirnar urðu sem lengstar. Aron Pálmarsson sneri aftur í íslenska liðið eftir að hafa verið meiddur á HM og tókst að þagga stöku sinnum niður í stúkunni, sem og Guðjóni Val sem vippaði boltanum ítrekað yfir Barcelona-markvörðinn Borko Ristovski og skoraði 5 mörk í fyrri hálfleiknum.

Makedónía náði mest fjögurra marka forskoti í fyrri hálfleiknum en Ólafur Guðmundsson skoraði síðasta markið fyrir hlé, með frábæru skoti á síðustu sekúndu, og minnkaði muninn í 15:13.

Aron fékk tveggja mínútna brottvísun strax í upphafi seinni hálfleiks en þrátt fyrir það tókst Íslendingum fljótt að jafna metin. Það gerði Björgvin Páll Gústavsson með mögnuðu skoti yfir allan völlinn þegar Ristovski var örlítið of seinn af bekknum. Rúnar Kárason kom Íslandi svo yfir í fyrsta sinn síðan á upphafsmínútunum, 17:16, á 36. mínútu.

Eftir það tók við slæmur kafli hjá íslenska liðinu. Aron jafnaði metin í 19:19 en klikkaði á næstu tveimur skotum, Rúnar Kára átti ótímabært skot yfir og víti Guðjóns var varið. Makedóníumenn komust í 22:19 áður en Geir Sveinsson tók leikhlé um miðjan seinni hálfleik.

Kári Kristjánsson og Björgvin Gústavsson fara yfir málin.
Kári Kristjánsson og Björgvin Gústavsson fara yfir málin. Ljósmynd/Robert Spasovski

Ísland fékk tvær brottvísanir með skömmu millibili en Ómar Ingi Magnússon skoraði tvö mörk í röð og minnkaði muninn í 25:23 þegar tæpar tíu mínútur voru eftir. Stephen Nielsen kom á sama tíma í markið í skamma stund en þetta var hans fyrsti mótsleikur fyrir Ísland.

Guðjón Valur minnkaði muninn í 26:25 úr hraðaupphlaupi þegar sjö mínútur voru eftir en fleiri mörk skoraði Ísland ekki í leiknum og Makedónía fagnaði fimm marka sigri fyrir framan frábæra stuðningsmenn sína.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is. Viðtöl koma inn síðar í kvöld og fjallað verður um leikinn í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Ólafur Guðmundsson í loftinu.
Ólafur Guðmundsson í loftinu. Ljósmynd/Robert Spasovski

 

Makedónía 30:25 Ísland opna loka
60. mín. Filip Taleski (Makedónía) skoraði mark Fast skot fyrir utan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert