Xavi Sabate, fráfarandi þjálfari ungverska handknattleiksliðsins Veszprém, var í löngu viðtali við handnews.fr þar sem hann ræðir tíma sinn hjá félaginu og um nokkra leikmenn þess, þar á meðal Aron Pálmarsson. Ljubomir Vranjes mun taka við þjálfun liðsins af Sabate fyrir næsta tímabil.
Hjá Veszprém er búist við að þú vinnir Meistaradeild Evrópu. Finnst Sabate það raunhæft?
„Það er enginn þjálfari í heiminum sem getur verið öruggur með að vinna Meistaradeildina. Í Final4 í ár munaði ekki nema einu marki í þremur af fjórum leikjum."
Sabate hafði stundum lítið að segja um hverjir komu til félagsins. Marko Kopljar er einn þeirra.
„Kopljar er einn af þeim leikmönnum sem ég fékk en ég bað ekki um. Hann er góður leikmaður en hann hentar okkur ekki vel. Hann hafði varla spilað í tvö ár þegar við fengum hann og það var skrítið. Ég komst oft að því á Facebook hverjir yfirgáfu félagið, það var aldrei talaði við mig."
Hann ræddi svo pressuna sem fylgir því að þjálfa Veszprém.
„Hjá Veszprém þarftu að vinna og ef þú vinnur með einu marki ertu ekki nægilega góður. Þú verður helst að vinna með tíu mörkum. Ég sagði stjórninni að við gætum tapað leikjum á þessari leiktíð því leikjaálagið var gríðarlega mikið. Þá var það ljóst um leið að ég yrði ekki lengur hjá félaginu."
Sabate hefur miklar mætur á Aroni Pálmarssyni og segir hann vera besta leikmann í heimi.
„Aron er mikið betri liðsmaður en hann var þegar hann kom frá Kiel. Hann hefur bætt sig í vörninni og ég efast ekki um það að hann sé besti leikmaður í heimi þessa stundina," sagði Sabate.