Hefur ekki tekið þátt í Evrópukeppni í 18 ár

Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar.
Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er mjög spennandi verkefni, ég er ánægður með ferðalagið. Það er fínt að fá að sleppa við að fara langt inn í Austur-Evrópu. Ferðalagið er frábært og andstæðingurinn er spennandi," sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar eftir að ljóst varð að liðið mun mæta Bækkela­get frá Nor­egi í fyrstu umferð EHF-bikar karla í handknattleik.  

„Þeir lentu í öðru sæti í deildinni og duttu út í átta liða úrslitum, fyrstu umferð. Það hefur verið mikil vonbrigði fyrir þá, þetta er hörkulið og spennandi einvígi."

Bækkelaget endaði með 31 stig í norsku deildinni í fyrra, eins og Haslum, sem Valsmenn slógu út í Áskorendabikarnum á síðustu leiktíð. 

„Við teljum okkur eiga góða möguleika en við berum mikla virðingu fyrir þeim. Þetta er verðugt verkefni en við ætlum okkur áfram í aðra umferð. Þetta er spennandi verkefni fyrir okkur, Afturelding ekki tekið þátt í Evrópukeppni í 18 ár og þetta er nýtt fyrir okkur."

Nái Afturelding að slá Bækk­ela­get úr leik bíður Do­brogea Sud Const­anta frá Rúm­en­íu í 2. um­ferð.

„Constanta er nokkuð sterkt lið og það er verðugt verkefni ef við klárum þetta, við tökum því fagnandi ef við klárum Norðmennina," sagði Einar Andri að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert