Verðum að nýta tækifæri okkar

Gunnar Kristinn Þórsson, leikmaður Aftureldingar í skotfæri í leiknum við …
Gunnar Kristinn Þórsson, leikmaður Aftureldingar í skotfæri í leiknum við Bækkelaget í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við verðum og eigum að nýta okkar tækifæri betur til að ná fram betri úrslitum,“ sagði stórskyttan unga, Birkir Benediktsson, eftir eins marks tap Aftureldingar fyrir Bækkelaget, 26:25, í fyrri viðureign liðanna í fyrstu umferð EHF-keppninnar í handknattleik karla að Varmá í kvöld. Birkir var markahæstur leikmanna Aftureldingar með sjö mörk og kom mjög sterkur upp þegar leið á leikinn.

„Við gerðum líka of mörg tækileg mistök í þessum leik. Norðmennirnir voru fljótir að refsa okkur fyrir hver mistök með hraðaupphlaupum,“ sagði Birkir sem var ánægður með eigin frammistöðu þegar á leikinn leið. „Ég ákvað að koma af krafti á vörn þeirra og sjá hvað myndi gerast.“

Birkir  segir engan mun vera á liðum Aftureldingar og Bækkelaget og þrátt fyrir eins marks tap í kvöld þá sé nóg eftir af þessari rimmu. Aftureldingarliðið á alla möguleika á að snúa taflinu við í síðari leiknum í Ósló eftir viku að mati Birkis.  „Við verðum að eiga góðan leik til þess að vinna ytra en ég tel það vera raunhæft. Það er svo lítill munur á þessum tveimur handboltaliðum,“ sagði Birkir Benediktsson, markahæsti leikmaður Aftureldingar í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert