Selfoss vann gríðarlega góðan 24:23-útisigur á Haukum í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Haukar voru mest sex mörkum yfir en með glæsilegum seinni hálfleik tókst gestunum að tryggja sér sigur.
Leikurinn var jafn fyrstu mínúturnar en eftir því sem leið á hálfleikinn tóku heimamenn völdin og breyttu þeir stöðunni úr 3:2 fyrir Selfoss í 11:4 sér í vil. Vörn Hauka stóð mjög vel og þar fyrir aftan tók Björgvin Páll Gústavsson auðveldlega á móti slökum skotum Selfyssinga, sem skoruðu ekki mark í 12 mínútur um miðbik hálfleiksins. Selfoss byrjaði loks að skora á ný síðustu fimm mínúturnar í hálfleiknum en staðan að honum loknum var 13:8, Haukum í vil.
Haukar fóru nokkuð vel af stað í seinni hálfleik og komust í 16:10. Þá tók við glæsilegur kafli hjá gestunum því átta mínútum síðar var staðan orðin 16:16 og leikurinn skyndilega orðinn spennandi. Selfoss komst í 17:16 mínútu síðar með sjöunda marki sínu i röð.
Leikurinn var í járnum eftir það og skiptust liðin á að vera einu marki yfir. Staðan var 22:22 þegar þrjár mínútur voru til leiksloka og 23:23 þegar ein og hálf mínúta var eftir. Alexander Már Egan kom Selfossi í 24:23 hálfri mínútu fyrir leikslok. Haukar fengu eina sókn til viðbótar en Halldór Ingi Jónasson skaut í stöngina úr opnu færi í blálokin og mangaður sigur Selfyssinga varð raunin.