„Þetta er eins galið og það getur verið“

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH.
Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH. mbl.is/Kristinn Magnússon

Búið er að ákveða fyrirkomulagið á hinni víðfrægu vítakeppni FH og St. Pétursborgar sem fram fer ytra á sunnudagsmorguninn og sker úr um það hvort liðið mætir Tatran Presov frá Slóvakíu í 3. umferð EHF-keppninnar í handknattleik.

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, fór yfir málið í heild sinni með blaðamanni mbl.is en áður skal rifjað upp um hvað málið snýst:

Rúss­arn­ir sendu inn kæru eft­ir síðari leik liðanna í St. Pét­urs­borg í síðasta mánuði en eft­ir­lits­manni EHF urðu þá á mis­tök. Þar sem úr­slit­in urðu þau sömu og í fyrri leikn­um í Kaplakrika hefði átt að fara í víta­keppni en leik­ur­inn var fram­lengd­ur. St. Pét­urs­borg vann kæru­málið og dóm­stóll EHF úr­sk­urðaði að liðin þyrftu að eig­ast við í víta­keppni. Áfrýj­un FH-inga skilaði ekki ár­angri.

„Við hefðum getað farið með þetta í einn dómstól í viðbót, en höfum ekki peninga til þess enda kostar það fimm þúsund evrur að áfrýja þangað. Hvaða atvinnumannalið í Evrópu hefði farið með þetta alla leið, en við höfum bara ekki peninginn í það,“ segir Halldór Jóhann við mbl.is og vandar Evrópska handknattleikssambandinu ekki kveðjurnar.

mbl.is/Eva Björk

Reglurnar fyrir vítakeppnina ákveðnar í flýti

„Þetta er neyðarlegt fyrir handboltann í Evrópu. Við lútum því að þurfa að gera þetta, en handboltinn í Evrópu hefur gert sig að athlægi með þessu. Það þarf að gera breytingar á deildinni hérna heima vegna þessa vesens og við erum bara mjög svekktir með þessa niðurstöðu. Við þurfum að taka þessu, en ég hef enga trú á því að eitthvað af stóru liðunum í Evrópu hefði verið sent aftur í vítakeppni. Menn hefðu bara hlegið að því,“ segir Halldór Jóhann.

Hann setur einnig stórt spurningarmerki við fyrirkomulag vítakeppninnar. Um er að ræða viðburð sem aldrei hefur farið fram áður, engin fordæmi eru fyrir og reglurnar í kringum vítakeppnina voru ákveðnar aðeins fyrir þennan eina viðburð.

„Það er búið að setja reglur um að dómarar geti ákveðið hvort markið er kastað á og Rússarnir geta á meðan smalað inn á leikinn og látið fólk vera geðsjúkt bak við markið. Það segir í reglunum að bæði lið hafi 20 mínútur til að hita upp við það mark sem dómarar ákveða að það kasti á. Þessar reglur eru settar í bakherbergi hjá EHF, það er ekkert fordæmi fyrir þessari keppni hjá neinu sambandi en samt er hún haldin. Þetta er eins galið og það getur verið og við getum sett okkur á spjöld sögunnar að taka þátt í þessu rugli,“ segir Halldór Jóhann.

Einar Rafn Eiðsson tekinn föstum tökum gegn St. Pétursborg.
Einar Rafn Eiðsson tekinn föstum tökum gegn St. Pétursborg. mbl.is/Kristinn Magnússon

HSÍ þarf að ganga í ábyrgð fyrir EHF

Eins og Halldór Jóhann bendir á hallar á FH að vítakeppnin skuli fara fram á heimavelli St. Pétursborgar. Rússneska liðið hefur gefið það út að frítt verði inn á viðburðinn og mbl.is veit af því að stuðningsmenn liðsins muni meðal annars senda sms-skilaboð til þess að minna á vítakeppnina. Þeir ætla sér því að smala inn.

„Það hefði verið rosalega auðvelt fyrir EHF að láta úrslitin standa því það voru gerð mistök í framkvæmd leiksins. Menn hefðu bara lært af þessu og ekki látið þetta koma fyrir aftur og farið yfir reglurnar. Þetta er með ólíkindum,“ segir Halldór.

FH þarf ekki að bera neinn kostnað af ferðalaginu, en ferðaskrifstofan VITA kom til og gekk frá málunum. Þá gengur HSÍ í ábyrgð fyrir EHF og verður svo að treysta á að sambandið borgi til baka. Bara flugið fyrir FH kostar 3,2 milljónir og vegabréfsáritunin 200 þúsund krónur. Þá er allt annað ótalið.

„Menn myndu aldrei trúa vinnunni sem stjórnarmenn í handboltanum hjá FH hafa lagt á sig út af þessu bíói. EHF setur einhvern dóm og svo er það sett í hendurnar á stjórnarmönnum FH að sjá um allt ferðaplan og finna út úr því. Þetta er galið,“ segir Halldór Jóhann.

Ágúst Birgisson skorar í fyrri leik FH og St.Pétursborgar.
Ágúst Birgisson skorar í fyrri leik FH og St.Pétursborgar. mbl.is/Kristinn Magnússon

FH-ingar skikkaðir á fund ef þeir komast áfram

Eins og fyrr segir mun sigurvegarinn í vítakeppninni mæta Slóvakíumeisturum Tatran Presov í næstu umferð, sem er sú síðasta fyrir riðlakeppnina í EHF-bikarnum. Leikirnir hefðu átt að fara fram seinni hluta nóvembermánaðar, en nú mun síðari leikurinn í þeirri viðureign fara fram í byrjun desember. Hins vegar verður fundur fyrir riðlakeppnina haldinn í lok nóvember og ef FH kemst áfram úr vítakeppninni þarf liðið að senda fulltrúa á þann fund – jafnvel þótt liðið komist svo ekki í riðlakeppnina.

„Það er alveg ljóst að áhuginn hjá félaginu okkar fyrir þessari keppni hefur dalað svakalega eftir þetta. Við erum bara áhugamannalið, annað en andstæðingarnir sem við erum að keppa á móti. Þetta hefur áhrif á vinnu hjá mönnum og allt slíkt þar sem það er bara hobbí að spila handbolta. Þótt við séum góðir og gefum allt í þetta,“ segir Halldór Jóhann.

Hann segist ekki setja neina pressu á lið FH fyrir vítakeppnina. Hann hefur þegar ákveðið hverjir taka víti, en ekki í hvaða röð. Það muni ráðast þegar nær dregur.

„Við förum út og ætlum að gera það besta úr þessu. Svo kemur bara í ljós hvernig fer. Vítakeppni er bara eins og að kasta peningi; þú veist aldrei hvað kemur út úr því. En það er búið að gera handboltann að aðhlátursefni hjá öðrum íþróttagreinum í Evrópu,“ segir Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert