ÍBV fór með sigur af hólmi, 34:33, þegar liðið mætti FH í níundu umferð Olísdeildar karla í handbolta í Kaplakrika í kvöld. FH var fyrir leikinn taplaust eftir fyrstu átta umferðir deildarinnar og ÍBV því fyrsta liðið til þess að vinna FH í deildinni á yfirstandandi leiktíð. ÍBV hefur 14 stig eftir þennan sigur og situr í fjórða sæti deildarinnar.
FH byrjaði leikinn betur og hafði tveggja til þriggja marka forskot til þar um miðbik fyrri hálfleiks. Þá þéttu Eyjamenn tökin á framliggjandi 5:1-vörn sinni. Eyjamenn þvinguðu leikmenn FH hvað eftir annað í erfiðar sendingar sem varð til þess að FH-ingar töpuðu ansi mögum boltum í lokaþriðjungi fyrri hálfleiks.
ÍBV náði að byggja upp sex marka forskot með þéttum varnarleik sínum og beinskeyttum sóknarleik. FH komst með mikilli seiglu aftur inn í leikinn í seinni hálfleik og að lokum var það aðeins eitt mark sem skildi liðin að. FH hefði hæglega getað tryggt sér annað eða jafnvel bæði stigin í leiknum. Þegar á heildina er litið var sigur ÍBV þó sanngjarn.
Kári Kristján Kristjánsson var ansi öflugur inni á línunni í þessum leik, en hann var markahæsti leikmaður ÍBV ásamti Theodóri Sigurbjörnssyni með tíu mörk. Theodór skoraði lungann af mörkum sínum með góðum skotum fyrir utan sem er vopn sem er afar gott fyrir hornamann að hafa.
Einar Rafn Eiðsson og Gísli Þorgeir Kristjánsson voru atkvæðamestir í liði FH með sjö mörk hvor. Auk þess að skora sjö mörk var Gísli Þorgeir lunkinn við að finna Ágúst Birgisson inni á línunni og fleiri leikmenn liðsins í góðum færum.
FH er áfram á toppi deildarinnar þrátt fyrir þetta tap, en liðið hefur 16 stig og er einu stigi á undan Val sem er í öðru sæti deildarinnar. ÍBV hefur 14 stig eftir þennan sigur, en sigurinn varð til þess að liðið klifraði upp í þriðja sæti deildarinnar.