Selfyssingar unnu frábæran sigur á FH í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. Lokatölur í Vallaskóla urðu 24:23.
Heimamenn voru frábærir í fyrri hálfleik þar sem þeir spiluðu gríðarlega fasta vörn og FH skoraði aðeins 7 mörk, gegn 12 mörkum Selfoss.
FH-ingar hresstust í seinni hálfleik og unnu forskot Selfyssinga smátt og smátt niður. FH jafnaði 20:20 þegar sex mínútur voru eftir af leiknum og við tóku magnaðar lokamínútur. Þar fóru Selfyssingar betur með sín færi og fengu mikilvægar vörslur frá Sölva Ólafssyni.
Teitur Örn Einarsson var markahæstur Selfyssinga með 8/4 mörk og Haukur Þrastarson átti frábæran leik með 6 mörk. Sölvi Ólafsson varði 13 skot í marki Selfoss og Helgi Hlynsson kom inn á til þess að verja tvö vítaskot.
Hjá FH var Óðinn Þór Ríkharðsson markahæstur með 8 mörk og Einar Rafn Eiðsson skoraði 5. Ágúst Elí Björgvinsson varði 11/1 skot í marki FH.