Selfoss vann öruggan sigur á Víkingi, 36:25, í Víkinni í kvöld í 11.umferð Olís-deildar karla í handknattleik. Gestirnir að austan voru með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda og voru til að mynda sjö mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 19:12.
Gríðarlegur munur er á þessum liðum tveimur, svo að aldrei lék vafi á hvorum megin sigurinn félli.
Selfoss er áfram í 5.sæti, nú með 14 stig. Víkingar reka lestina af 12 liðum með þrjú stig.
Leikmenn Selfoss tóku leikinn í sínar hendur strax á upphafsmínútunum. Sóknarleikurinn var hraður og skemmtilegur og varnarleikurinn á köflum góðum. Víkingar áttu erfitt uppdráttar. Varnarleikurinn var afar slakur og sóknarleikurinn á tíðum mistækur. Síðasta mark Selfoss-liðsins í fyrr hálfleik, þegar Teitur Örn Einarsson, skoraði með þrumu skoti nánast frá miðju var lýsandi fyrir varnarleik Víkings í fyrri hálfleik. Staðan var, 19:12, Selfossi í vil.
Einar Sverrisson fór á kostum gegn slakri voru Víkinga og skoraði sex mörk.
Markvarslan var slök hjá báðum liðum í fyrri hálfleik. Þeir fjórir sem voru á leikskýrslu fengu allir að spreyta sig en stóðu vaktina meira upp á punt fremur en hitt.
Hafi einhver gert sér vonir um að Víkingur næði að saxa á forskot Selfyssinga þá runnu þær vonir fljótlega út í sandinn. Eftir rúmlega 10 mínútur í síðari hálfleik var munurinn orðinn tíu mörk, 26:16, og úrslitin ráðin.