Selfyssingar rúlluðu Stjörnunni upp þegar liðin mættust í Olísdeild karla í handbolta á Selfossi í kvöld. Lokatölur urðu 31:26. Selfyssingar komust með sigrinum að hlið ÍBV í fjórða til fimmta sætinu með 16 stig en Stjarnan er áfram í 6. sætinu með 11 stig.
Eftir gangtruflanir í upphafi leiks fór mjaltavélin að malla jafnt og þétt og munurinn var orðinn sex mörk í hálfleik, 16:10. Stjörnumenn svöruðu fyrir sig í upphafi seinni hálfleiks og náðu að minnka muninn í tvö mörk, en þá tóku heimamenn við sér aftur og kláruðu leikinn af öryggi.
Einar Sverrisson og Haukur Þrastarson voru markahæstir Selfyssinga með 7 mörk og Helgi Hlynsson varði 8 skot í marki Selfoss. Hjá Stjörnunni var Egill Magnússon markahæstur með 8 mörk og Leó Snær Pétursson skoraði 6. Sveinbjörn Pétursson varði 7/1 skot í marki Stjörnunnar.