Norska handknattleikskonan Nora Mørk hefur ekki átt sjö dagana sæla eftir að óprúttnir aðilar brutu alvarlega á einkalífi hennar með að dreifa viðkvæmum myndum úr síma hennar á meðal almennings. Aðilarnir brutust í síma Mørk og ætluðu að kúga landsliðskonuna, sem sagði norskum fjölmiðlum frá atvikinu í nóvember á síðasta ári.
Í vikunni kom í ljós að leikmenn norska karlalandsliðsins hafi dreift myndunum sín á milli. Eins og gefur að skilja var Mørk allt annað en sátt og sérstaklega í ljósi þess að norska handboltasambandið þagði um málið.
Nú er komið í ljós að myndirnar hafa einnig verið í dreifingu á meðal leikmanna í dönsku karladeildinni í handbolta. Danska dagblaðið BT Sports greinir frá þessu í dag og segir Mørk eiga mjög erfitt þegar fleiri fréttir berast af útbreiðslu myndanna.
Mørk hefur kært fimmtán manns fyrir að dreifa myndunum og eiga þeir von á peningasekt. Óvíst er hver framtíð Mørk með norska landsliðinu verður, en Þórir Hergeirsson er þjálfari hennar þar. Þórir hefur ávallt staðið með Mørk í málinu og komið henni til varnar.