Íslenska landsliðið í handknattleik karla tryggði sér í kvöld sæti á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Danmörku og í Þýskalandi í janúar eftir þriggja marka sigur, 34:31 á Litháen i stórskemmtilegum handboltaleik í Laugardalshöll í kvöld.
Leikurinn var jafn strax frá fyrstu mínútu og nánast jafnt á öllum tölum. Arnór Þór Gunnarsson fékk rautt spjald eftir um 15 mínútur eftir að hann skaut óvart í höfuð markvarðar Litháa úr vítakasti. Brottreksturinn hleypti auknu lífi í íslenska liðið sem sneri leiknum sér í hag.
Þegar um tíu mínútur voru til leiksloka kom góður kafli hjá íslenska liðinu. Vörnin batnaði og í framhaldinu kom 4:0 kafli og fjögurra marka forskot, 17:13, sem því miður tókst ekki að halda til loka hálfleiksins gegn baráttuglöðum Litháaum sem minnkuðu muninn í tvö mörk, 18:16, rétt áður en síðasta flaut hálfleiksins gall.
Íslenska liðið var hinsvegar með yfirhöndina allan síðari hálfleikinn. Leikmenn Litháa voru hinsvegar seigir undir tönn og gáfu lítt eftir. Samheldni og baráttan var fyrir hendi í íslenska liðinu sem lék afar vel útfærðan leik og vann sannfærandi sigur, 34:31, og verður þar með þátttakandi á níunda heimsmeistaramótinu á þessari öld.
Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í íslenska liðinu kvöld. Hann skoraði 10 mörk í 12 skotum. Aron Pálmarsson skoraði fimm mörk eins og Theodór Sigurbjörnsson. Ólafur Guðmundsson og Ómar Ingi Magnússon skoruðu 4 mörk hvor. Fleiri komust á blað eins sér á tölfræði leiksins sem er hér að neðan.
Björgvin Páll Gústavsson átti afar góðan leik í markinu og eins var innkoma Ágúst Björgvinssonar í síðari hálfleik mikilvæg. Hann varði vítakast og línuskot í sömu sókninni í jafnri stöðu leiksins.
Á heildina litið var leikur íslenska liðsins afar vel útfærður, ekki síst í sókninni og ljóst að handbragð nýs landsliðsþjálfara sér stað á liðinu.
Þá má ekki gleyma hlut áhorfenda sem voru frábærir. Þeir fylltu Laugardalshöllinni og héldu uppi þrumustuði og magnaðri stemningu til leiksloka.
Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.