Einn af lykilmönnum Makedóníu verður fjarri góðu gamni á heimsmeistaramóti karla í handknattleik sem hefst í Þýskalandi og Danmörku 10. janúar en Makedónía er í riðli með Íslandi á mótinu.
Hinn reyndi leikstjórnandi Filip Mirkulovski, sem leikur með Wetzlar í Þýskalandi, hefur dregið sig út úr hópnum vegna meiðsla en hann er 35 ára gamall og hefur lengi verið einn af bestu leikmönnum liðsins.
Makedónía og Ísland eru í B-riðli ásamt Spáni, Króatíu, Barein og Japan og flestir reikna með því að baráttan um að ná þriðja sæti og komast í milliriðil muni standa á milli Makedóníu og Íslands. Liðin mætast í lokaumferð riðlakeppninnar í München 17. janúar og líkur eru á að það verði hreinn úrslitaleikur.
Ísland mætir Króatíu í fyrsta leiknum 11. janúar en þá leikur Makedónía við Japan.