„Svona er bikarkeppnin. Það er mikið undir og stundum þarf að hafa lukkuna með sér í liði,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, annar þjálfari karlaliðs Vals í handknattleik,eftir að lið hans komst í úrslit Coca Cola-bikarsins í handknattleik karla í kvöld eftir framlengdan háspennuleik við Fjölni, 28:25, í Laugadalshöll.
„Það segir sig sjálft að með svona leik þá verður við langt frá því að verða bikarmeistarar. Nú förum við á fund í Valsheimilinu þar sem þessi viðureign verður sett til hliðar en einbeitingin sett á úrslitaleikinn,“ sagði Snorri Steinn sem var óánægður með leik sinna manna lengst af venjulegs leiktíma en hrósaði þeim fyrir að hrista af sér pressuna þegar kom fram í framlengingu og vinna.
Valur byrjaði leikinn vel og var m.a. með fjögurra marka forskot, 10:6, þegar liðlega 20 mínútur voru liðnar. Svo virtist sem Valsmenn væru með leikinn í höndum sér. Eftir leikhlé Fjölnismanna í stöðunni 10:6 var sem Valsmenn slökuðu á klónni á sama tíma og leikmenn Fjölnis óx ásmegin.
„Ég var gríðarlega ósáttur við þann kafla sem tók við hjá okkur eftir að við vorum komnir með fjögurra marka forskot eftir um tuttugu mínútna leik. Þá hættu menn að bera næga virðingu fyrir verkefninu og brjóta okkur út úr því leikskipulagi sem við höfðum fylgt fram að því. Við slökuðum á og mér finnst það vera lélegt að okkar hálfu,“ sagði Snorri Steinn og bætti við.
„Eftir jafnan leik í hálfleik þá leiddi eitt af öðru. Mönnum brást bogalistinn í dauðafærum. Taugarnar voru þandar og enda mikið undir. En eins óánægður og ég var með leikinn þá verð ég að hrósa strákunum fyrir hvernig þeir kláruðu leikinn. Það er meira en að segja að það að standast þá pressu sem var á okkur á lokakaflanum og í framlengingunni,“ sagði Snorri Steinn.
Talsverð töf var á leiknum þegar fimm sekúndur voru til leiksloka eftir að brotið var á Valsmanninum Magnúsi Óla Magnússyni, að mörgum fannst utan vítateigs. Eftir að hafa skoðað upptöku af brotinu nokkrum sinnum af sjónvarpsskjá þá var það niðurstaða dómaranna, Bjarka Bóassonar og Gunnars Óla Gunnarssonar að dæma vítakast. Úr því jafnaði Anton Rúnarsson metin á síðustu sekúndum fyrri hálfleik, 22:22, og knúði þar með framlengingu. Snorri Steinn segir að það hljóti að hafa verið réttur dómur enda hafi dómararnir margfarið yfir upptökuna áður en þeir dæmdu. „Það hlýtur að hafa verið rétt.“