Handknattleiksdeild Fjölnis hefur ákveðið að kæra framkvæmd leiks Fjölnis og Vals í undanúrslitum Coca Cola-bikars karla í handknattleik í gærkvöldi í ljósi úrskurðar aganefndar HSÍ í morgun. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Fjölni sem send var á fjölmiðla rétt í þessu.
Í úrskurði aganefndarinnar kemur fram að dómarar leiksins viðurkenna í leikskýrslu sinni að hafa gert mistök þegar þeir ráku Arnar Mána Rúnarsson, leikmann Fjölnis, að velli skömmu fyrir leikslok. Í kjölfarið fengu Valsarar vítakast sem þeir nýttu til að knýja fram framlengingu þar sem þeir unnu að lokum leikinn.
Yfirlýsing Fjölnis
Í ljósi úrskurðar aganefndar HSÍ þess efnis að rautt spjald sem dæmt var á leikmann Fjölnis undir lok leiks Fjölnis og Vals í undanúrslitum bikarkeppni HSÍ hefur verið dregið til baka hefur stjórn handknattleiksdeildar Fjölnis kært framkvæmd leiksins til dómstóls HSÍ.