Dramatískt tap á síðustu sekúndu

Íslenska landsliðið í handknattleik karla tapaði fyrir Norður-Makedóníu, 35:34, í undankeppni Evrópumótsins í Laugardalshöll. Dejan Manaskov skoraði sigurmarkið á síðustu sekúndu leiksins eftir að hafa náð frákasti þegar Björgvin Páll Gústavsson varði vítakast hans. 

Íslenska landsliðið átti möguleika á að tryggja sér sigurinn en skref voru dæmd á Ómar Inga Magnússon þegar fimm sekúndur voru til leiksloka í jafnri stöðu, 33:33. Hann lagði ekki boltann niður heldur kastaði honum frá sér og þess vegna var dæmt vítakast á íslenska liðið samkvæmt reglu um brot á síðustu mínútu leiksins. 

Þetta er fyrsta tap landsliðsins í mótsleik í Laugardalshöll frá 2006 að landsliðið beið lægri hlut fyrir sænska landsliðinu. Staðan var jöfn í hálfleik, 17:17.

Landslið Íslands og Norður-Makedóníu mætast öðru sinni í þriðja riðli undankeppninnar í Skopje í Makedóníu á sunnudaginn. Liðin eru nú jöfn með fjögur stig hvort eftir þrjá leiki. Tyrkir og Grikkir hafa tvö stig hvorir. Tvö efstu lið riðilsins þegar keppni lýkur í júní eru gulltryggð um sæti í lokakeppni EM í janúar nk.

Fyrstu 20 mínútur leiksins voru góðar hjá íslenska liðinu. Makedóníumenn komu á óvart með því að leika ekki með sjö menn í sókn eins og þeir hafa nær undantekningarlaust gert síðustu árin. Nýir siðir með nýjum þjálfara. Þeir virtust einnig nokkuð ryðgaðir framan af gegn ákveðinni vörn íslenska liðsins. Eftir 20 mínútur hafði íslenska liðið öll tök á leiknum eftir að hafa verið með tveggja til þriggja marka forskot. Sóknarleikurinn gekk og vel þar sem Aron Pálmarsson fór á kostum og skoraði helming marka á þessum kafla og átti einnig nokkrar stoðsendingar. Makedóníumenn voru í vandræðum með framliggjandi vörn sína og fengu m.a. fjórum sinnum á sig brottrekstur. Staðan var 11:8 þegar tæplega 20 mínútur voru liðnar af leiknum.

Síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiks gengu hins vegar illa hjá íslenska liðinu. Makedóníumenn bökkuðu aðeins í vörninni og náðu að vinna nokkrum sinnum boltann. Smátt og smátt komust þeir inn í leikinn og náðu forystu í fyrsta sinn, 13:12, á 23 mínútu eftir að hafa skorað fimm mörk gegn einu íslensku á fimm mínútna kafla. Það sem eftir lifði hálfleiksins var leikurinn jafn og staðan var jöfn, 17:17, þegar blásið var til hálfleiks.

Íslenska liðið byrjaði síðari hálfleik vel og náði tveggja marka forskoti snemma, 22:20. Það var hins vegar fljótt að fara. Norður-Makedóníumenn náðu að loka fyrir Aron sem var langatkvæðamesti leikmaður íslenska liðsins. Sóknarleikur þeirra gekk greiðlega. Sóknir voru langar. Varnarleikur íslenska liðsins var heldur ekki sannfærandi enda reyndi vafalaust talsvert á þolinmæðina að standa gegn löngum sóknum Norður-Makedóníumanna. Þess utan var markvarslan lítil hjá íslenska liðinu.

Síðustu mínúturnar voru æsilega spennandi og jafnt á öllum tölum. Nikola Mitrevski, markvörður Makedóníu, varð skot Ólaf þegar mínúta var til leiksloka. Makedóníumenn hófu sókn en fengu dæmdan á sig ruðning þegar 11 sekúndur voru til leiksloka. Eftir leikhlé íslenska liðsins var lagt af stað í sókn. Skref voru dæmd á Ómar Inga þegar fimm sekúndur voru til leiksloka. Hann kastaði boltanum út fyrir hliðarlínu og dæmt var vítakast á íslenska liðið vegna þess að Ómar Ingi lagði ekki frá boltann. Björgvin Páll Gústavsson varði vítakast Dejan Manaskov en náði frákastinu og skoraði sigurmarkið á síðustu sekúndu leiksins.

Aron Pálmarsson var besti maður íslenska liðsins. Hann skoraði 12 mörk og fór á kostum í framúrskarandi sóknarleik íslenska landsliðsins sem dugði ekki til sigurs. Sennilega hefur Aron ekki leikið betur með landsliðinu um langt skeið en að þessu sinni.

Fyrsta tap íslenska landsliðsins í undankeppni EM er staðreynd. Enn eru þrír leikir eftir, gegn Norður-Makedóníu ytra á sunnudaginn, á móti Grikkjum ytra 12. júní og lokaleikurinn við Tyrki í Laugardalshöllinni fjórum dögum síðar. Þrátt fyrir tapið í kvöld eru möguleikar íslenska landsliðsins á að komast í lokakeppni EM enn þá góðir. 

Ísland 33:34 N-Makedónía opna loka
60. mín. Björgvin Páll Gústavsson (Ísland) ver víti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka