Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, hefur tekið þá ákvörðun að skipta út báðum markvörðunum sem tóku þátt í leiknum við Norður-Makedóníu í Laugardalshöll í gærkvöld fyrir síðari leikinn sem fram fer í Skopje á sunnudagskvöld.
Ágúst Elí Björgvinsson og Viktor Gísli Hallgrímsson standa í marki íslenska landsliðsins í leiknum ytra í stað Arons Rafns Eðvarðssonar og Björgvins Páls Gústavssonar. Ágúst og Viktor eru í 20 manna æfingahópnum sem Guðmundur Þórður valdi til undirbúnings fyrir leikina við Norður-Makedóníu í undankeppni Evrópumeistaramótsins.
Ágúst Elí, sem leikur með Sävehof í Svíþjóð, var annar markvörður íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi og í Danmörku í janúar. Viktor Gísli, sem verður 19 ára í júlí, er markvörður Fram. Hann fékk eldskírn sína með A-landsliðinu á fjögurra þjóða móti í Bergen fyrir réttu ári.
Björgvin Páll hefur aðeins misst úr einn A-landsleik frá því að hann kom inní landsliðið fyrir Ólympíuleikana 2008. Eini leikurinn er gegn Þjóðverjum í Halle í Þýskalandi 13. mars 2011 í undankeppni EM 2012. Þá fékk hann þungt höfuðhögg daginn fyrir landsleikinn og gat ekki leikið með af þeim sökum. Alls eru landsleikirnir liðlega 220.