Guðmundur sendir markverðina heim

Ágúst Elí Björgvinsson markvörður fyrir miðri mynd.
Ágúst Elí Björgvinsson markvörður fyrir miðri mynd. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, hefur tekið þá ákvörðun að skipta út báðum markvörðunum sem tóku þátt í leiknum við Norður-Makedóníu í Laugardalshöll í gærkvöld fyrir síðari leikinn sem fram fer í Skopje á sunnudagskvöld.

Ágúst Elí Björgvinsson og Viktor Gísli Hallgrímsson standa í marki íslenska landsliðsins í leiknum ytra í stað Arons Rafns Eðvarðssonar og Björgvins Páls Gústavssonar. Ágúst og Viktor eru í 20 manna æfingahópnum sem Guðmundur Þórður valdi til undirbúnings fyrir leikina við Norður-Makedóníu í undankeppni Evrópumeistaramótsins. 

Viktor Gísli Hallgrímsson verður annar markvörður A-landsliðsins í leiknum í …
Viktor Gísli Hallgrímsson verður annar markvörður A-landsliðsins í leiknum í Skopje á sunnudag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Ágúst Elí, sem leikur með Sävehof í Svíþjóð, var annar markvörður íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi og í Danmörku í janúar. Viktor Gísli, sem verður 19 ára í júlí, er markvörður Fram. Hann fékk eldskírn sína með A-landsliðinu á fjögurra þjóða móti í Bergen fyrir réttu ári. 

Björgvin Páll hefur aðeins misst úr einn A-landsleik frá því að hann kom inní landsliðið fyrir Ólympíuleikana 2008. Eini leikurinn er gegn Þjóðverjum í Halle í Þýskalandi 13. mars 2011 í undankeppni EM 2012. Þá fékk hann þungt höfuðhögg daginn fyrir landsleikinn og gat ekki leikið með af þeim sökum. Alls eru landsleikirnir liðlega 220.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert