Óboðlegt hótel beið strákanna

Aðkoma landsliðsins í Norður-Makedóníu var hörmuleg.
Aðkoma landsliðsins í Norður-Makedóníu var hörmuleg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska karlalandsliðið í handbolta mætir Norður-Makedóníu ytra í undankeppni EM kl. 18 annað kvöld. Landsliðið er komið til Norður-Makedóníu, en þar beið þeirra óboðlegt hótel að sögn Guðmundar B. Ólafssonar, formanns HSÍ. RÚV greinir frá. 

Guðmundur segir að m.a hafi ekki verið lyklar af öllum herbergjunum. Átti þá aðeins hluti leikmanna að vera á hóteli og hinn hlutinn í smáhúsum í nágrenninu.

Ekki var búið að þrífa eða skipta á rúmum og var lyktin óbærileg. Guðmundur bætti við að íslenska landsliðið hafi ekki upplifað annað eins í áraraðir. 

Gestgjafarnir fundu nýtt hótel, en ekki fyrr en HSÍ hafði gert slíkt hið sama. Er nú ágreiningur um hvort HSÍ eða Handknattleikssamband Norður-Makedóníu eigi að greiða reikninginn fyrir dýrara hótel. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert