„Þetta er að mörgu leyti djarft skref hjá Hauki en ég tel að þetta verði rétt skref af hans hálfu að ganga til liðs við Kielce. Ég veit vel hvað Haukur getur á handboltavellinum og er ekki í vafa um að Talant Dujshebaev kenni honum ennþá meira sem leiðir til þess að Haukur verður enn óviðráðanlegri á vellinum,“ sagði Þórir Ólafsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik og eini íslenski handknattleiksmaðurinn sem hefur leikið með pólska meistaraliðinu Vive Kielce, þegar Morgunblaðið innti hann í gær eftir áliti á ákvörðun Hauks Þrastarsonar að ganga til liðs við pólska liðið næsta sumar.
Þórir lék með Kielce frá 2011 til 2014 og var síðasta hálfa árið undir stjórn hins litríka en snjalla þjálfara Dujshebaevs. „Ég hefði sannarlega viljað komast undir stjórn Dujshebaevs fyrr á ferlinum. Dujshebaev hefur árum saman verið einn allra fremsti handknattleiksþjálfari heims. Honum tekst að kenna íþróttina á þann hátt að hún verður manni mun auðveldari en ella. Hann opnar nýja bók fyrir mönnum. Ég er hrikalega ánægður fyrir hönd Hauks,“ sagði Þórir.
Nánar er fjallað um félagaskipti Hauks í Morgunblaðinu í dag.