Þjóðverjar keyrðu yfir Íslendinga í seinni

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði fjögur mörk.
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði fjögur mörk. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska karlalandsliðið í handbolta mátti þola 25:33-tap fyrir Þýskalandi í vináttuleik í Manheim í dag. Staðan í hálfleik var 16:13, Þjóðverjum í vil, og heimamenn voru töluvert sterkari í seinni hálfleik. 

Íslenska liðið náði góðum kafla um miðbik fyrri hálfleiks og var staðan 13:13 þegar skammt var eftir af honum. Þjóðverjar skoruðu hins vegar þrjú síðustu mörkin og fyrstu fjögur í seinni hálfleik og lögðu með því grunninn að öruggum sigri. 

Aron Pálmarsson var ekki með íslenska liðinu vegna meiðsla og það munaði um hann á báðum endum vallarins. Janus Daði Smárason stýrði sóknarleiknum og gerði það vel framan af, en aðrir útileikmenn náðu sér ekki sérstaklega vel á strik. 

Björgvin Páll Gústavsson varði aðeins fjögur skot í fyrri hálfleik á meðan Viktor Gísli Hallgrímsson varði sjö í seinni hálfleik. Andreas Wolff og Johannes Bitter vörðu samtals 17 skot hjá Þjóðverjum. 

Leikurinn var sá eini sem íslenska liðið spilar í undirbúningi fyrir lokamót EM sem hefst næstu helgi. Fyrsti leikur Íslands verður gegn Dönum 11. janúar, en leikið verður í Malmö í Svíþjóð. 

Guðjón Valur Sigurðsson, Janus Daði Smárason og Arnór Þór Gunnarsson voru markahæstir í íslenska liðinu með fjögur mörk. 

Þýskaland 33:25 Ísland opna loka
60. mín. Leik lokið Þjóðverjar töluvert sterkari í dag, sérstaklega í seinni hálfleik.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert