Stórkostlegur sigur

Íslendingar lögðu heims- og ólympíumeistara Dana að velli í fyrsta leik sínum á EM karla í handknattleik í Malmö Arena í sænsku borginni Malmö í dag. Ísland vann 31:30 eftir að staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik. 

Íslenska landsliðið sýndi frábæra frammistöðu fyrir framan ellefu þúsund Dani og eitt þúsund Íslendinga og landaði sigri eftir mikla spennu og jafnan leik. Stærsti sigur strákanna okkar í áraraðir er staðreynd.  

Ísland kom handboltaheiminum á óvart með þessum úrslitum. Ekki einungis var Dönum spáð sigri í þessum leik heldur spá flestir þeim sigri í mótinu. 

Staðan var 15:15 að loknum fyrri hálfleik. Sóknin gekk þá geysilega vel hjá íslenska liðinu og dönsku markverðirnir náðu ekki að komast í gang en báðir fengu að spreyta sig. Aron Pálmarsson fór á kostum og skoraði 7 mörk í fyrri hálfleik og átti 5 stoðsendingar. Þar sem sóknin var öguð hjá íslenska liðinu náðu Danir ekki að skora mörk úr hraðaupphlaupum að neinu ráði. 

Fyrsta korterið í síðari hálfleik var vörn íslenska liðsins sterkari en í fyrri hálfleik og Ísland náði tveggja marka forskoti. Danir leystu úr því og náðu að opna hornin hvað eftir annað síðasta korterið og liðin skiptust á að ná forystunni. En Ísland náði þriggja marka forskoti þegar þrettán mínútur voru eftir 26:23. Þá fundu okkar menn að þeir áttu alla möguleika á sigri og pressan jókst á heimsmeistarana. 

Á 56. mínútu var staðan orðin jöfn 29:29. Þá gerði íslenska liðið mistök í þremur sóknum í röð sem var úr takti við frábæran sóknarleik í leiknum. Danir nýttu tækifærið og Íslendingurinn í liði Dana, Hans Óttar, var þá erfiður í hægra horninu. 

Klókindi Alexanders og Guðjóns

Þá stal Alexander sendingu og skoraði í opið mark Dana og kom Íslandi aftur yfir. Var það einn af vendipunktum leiksins. Á 59. mínútu náði Ísland tveggja marka forskoti. Þá sýndi fyrirliðinn Guðjón Valur leikskilning sinn og leysti inn á línu þegar sóknin var orðin vandræðaleg. Aron Pálmars kom auga á það og skilaði línusendingunni og Guðjón skoraði. 

Engu að síður gátu Danir jafnað í síðustu sókninni. Þeir fengu boltann þegar tæp hálf mínúta var eftir. Mikkel Hansen og félögum brást þá kjarkurinn og enginn tók af skarið. Þeir fengu aukakast eftir að leiktímanum lauk, Hansen skaut yfir varnarvegginn en Björgvin Páll varði af öryggi og sigurinn var í höfn.

Hansen átti stórleik framan af en af honum dró á lokakaflanum. Hann skoraði 9 mörk en 8 þeirra í fyrri hálfleik. 

Aron maður leiksins

Aron Pálmarsson var valinn maður leiksins og ekki að ástæðulausu. Hann sýndi hvers vegna hann er álitinn einn sá allra besti í heiminum. Hann skoraði 10 mörk. Ekkert þeirra úr víti og gaf urmul af stoðsendingum eða níu talsins. Þar að auki spilaði Aron megnið af leiknum í vörninni. Í dag sást glögglega munurinn á íslenska liðinu þegar hann er með eða þegar Aron vantar eins og gegn Þýskalandi í vináttuleiknum á dögunum. 

Björgvin Páll Gústavsson stóð í markinu í cirka 40 mínútur. Varði alls 8 skot. Í fyrri hálfleik fengu Danir mjög mörg góð skotfæri þá var ekki auðvelt fyrir Björgvin í markinu. Hann kom aftur í markið síðustu tíu mínútur og varði mjög mikilvægt skot á 58. mínútu frá Hans Óttari sem hafði verið illviðráðanlegur í síðari hálfleik. Viktor Gísli fékk að spreyta sig fyrstu 20 mínúturnar eða svo í síðari hálfleik og fékk eldskírn sína á stórmóti A-landsliða. 

Landin fékk rauða spjaldið

Dönsku markverðirnir vörðu ekki nema 7 skot samkvæmt mínum kokkabókum eins og Bjarni Fel myndi orða það. Sýnir það hversu öguð sóknin var hjá íslenska liðinu og þeir áttu ekki nokkra möguleika gegn Aroni Pálmars í dag. Lítil markvarsla gerði það að verkum að Danir skoruðu fá auðveld mörk eins og áður segir. Einn af vendipunktum leiksins var þegar Landin fékk rauða spjaldið á 43. mínútu fyrir að fara út á móti Ólafi Guðmunds sem var í hraðaupphlaupi. Ólafur náði að skila boltanum í netið, koma Íslandi yfir og Landin fékk rauða spjaldið. Mikið stemningsatriði fyrir Ísland. 

Kári Kristján lék lengst af á línunni. Var hann mjög drjúgur því hann fiskaði mörg víti fyrir utan mörkin sem hann skoraði og hjálpina sem hann veitti skyttunum. Kári og Aron ná mjög vel saman á vellinum eins og við höfum áður séð. Alexander kemur aftur inn í landsliðið með látum og átti virkilega góðan leik í vörn og sókn. Guðjón og Arnór fengu fá færi þar sem hornaspilið var ekki mikið en gerðu vel þegar færi gafst. Arnór náði til dæmis tvívegis í ruðning á Dani. Janus Daði var áræðinn á miðjunni í síðari hálfleik og átti nokkrar góðar stoðsendingar.

Ýmir fékk stórt hlutverk í dag í vörninni og sýndi hann er útsjónarsamur og efnilegur varnarmaður þótt stundum hafi verið erfitt að reyna að halda aftur af Hansen og Lauge. Við hlið hans var Elvar Örn sem var mjög góður í vörninni. Honum var refsað fyrir vasklega framgöngu og fékk rauða spjaldið vegna þriggja tveggja mínútna brottvísana. 

Sigur sem jafnast á við sigrana gegn Frökkum

Ungverjaland og Rússland eru einnig í E-riðlinum og Ungverjaland hafði betur 26:25. Ísland og Ungverjaland eru því með 2 stig í E-riðlinum að lokinni fyrstu umferð. Tvö lið komast áfram úr riðlinum. Ísland mætir Rússlandi á mánudag og Ungverjalandi á miðvikudag. 

Ísland er ekki orðið Evrópumeistari. Því miður virkar keppnisfyrirkomulagið ekki þannig. Ungverjar og Rússar eru snúnir andstæðingar en sigurinn í dag gefur mikla möguleika á því að komast langt í mótinu. Hafa ber í huga að góð frammistaða á EM gæti skilað Íslandi inn í forkeppnina fyrir Ólympíuleikana. 

Okkar menn og handboltaáhugafólk getur í það minnsta haft það huggulegt í kvöld og notið þess að Danir voru lagðir að velli á stórmóti í fyrsta skipti síðan 2010. Í ljósi styrkleika danska liðsins er sigurinn í dag nánast á pari við sigrana gegn Frökkum á HM 2007 og ÓL 2012.  

Danmörk 30:31 Ísland opna loka
60. mín. Leik lokið Ísland sigraði 31:30. Mögnuð tíðindi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka