Kristján Andrésson, landsliðsþjálfari Svía í handknattleik, hefur gert eina breytingu á liði sínu fyrir þriðja og síðasta leik liðsins í riðlakeppni Evrópumótsins.
Kristján skiptir um örvhenta skyttu því út fer Albin Lagergren, leikmaður Magdeburg, sem er 27 ára gamall og á 49 landsleiki að baki. Í stað hans kemur Jack Thurin, leikmaður Skövde, sem er aðeins tvítugur og á sex landsleiki að baki.
Svíar töpuðu óvænt fyrir Slóvenum í gærkvöld, 19:21, eftir að hafa unnið Sviss mjög örugglega í fyrsta leiknum. Þeir mæta Pólverjum á heimavelli sínum í Gautaborg í lokaumferðinni annað kvöld og fara áfram með sigri.
Svíþjóð og Ísland mætast í milliriðlinum í Malmö, fari svo að bæði liðin komist áfram úr sínum riðlum.