Sigur gegn Portúgal í Malmö

Ísland sigraði Portúgal í milliriðlakeppni Evrópumóts karla í handknattleik í Malmö Arena í sænsku borginni Malmö í dag 28:25. Var þetta fyrsti sigur Íslands í milliriðlinum og er Ísland því með tvö stig. 

Portúgal er með tvö stig eftir glæsilegan tíu marka sigur á Svíum í fyrrakvöld en liðið tók með sér sex marka tap gegn Noregi úr D-riðlinum. Ísland van án stiga eftir tapleikina gegn Slóvenum og Ungverjum. Aðrir leikir í milliriðlinum fara fram í dag og í kvöld en þá mætast Slóvenía og Ungverjaland og Svíþjóð og Noregur. 

Ísland fékk óskabyrjun í leiknum í dag. Ísland komst yfir 4:0 og 7:1 en fyrsta mark Portúgals kom ekki fyrr en eftir tæplega tíu mínútna leik. Lið Portúgals hefur komið mörgum mjög á óvart á EM með sigri á Frakklandi og Svíþjóð. Leikmenn liðsins voru því fullir sjálfstrausts og náðu að vinna sig tiltölulega fljótt inn í leikinn eftir slæma byrjun. Eftir 22 mínútur höfðu þeir minnkað muninn niður í eittt mark. Að loknum fyrri hálfleik hafði Ísland tveggja marka forskot 14:12. 

Svo fór að Portúgal komst yfir í fyrsta skipti í leiknum á 37. mínútu 17:16. Það braut okkar menn hins vegar ekki niður og þeir náðu aftur frumkvæðinu í leiknum. Það sem eftir lifði leiks var Ísland gjarnan með eins eða tveggja marka forskot. Íslenska liðið hélt það út og fagnaði sigri með því að taka Víkingaklappið í höllinni með íslensku stuðningsmönnunum. Í þeim hópi var forsetinn, Guðni Th. Jóhannesson. 

Janus Daði sprakk út í sókninni fyrir alvöru og var markahæstur með 8 mörk. Þegar Portúgalar reyndu að koma langt úti á móti þá refsaði Janus þeim með gegnumbrotum og fékk góða aðstoð til þess frá Aroni og Alexander sem valinn var maður leiksins af mótshöldurum. Alexander lék mjög vel í vörn og sókn. Var miklu ferskari en gegn Slóveníu. 

Ekki gekk allt upp hjá Aroni því hann var lengi utan vallar í fyrri hálfleik vegna meiðsla. Aron lék megnið af síðari hálfleik og var þá virkilega góður. Skoraði mikilvæg mörk og opnaði fyrir aðra. Fyrirliðinn Guðjón Valur átti heilsteyptan og flottan leik því hann nýtti öll fimm skot sín en stal einnig boltanum tvisvar og fékk víti. 

Björgvin Páll lék allan leikinn í markinu og var traustur. Náði að halda dampi allan leikinn og var með 34% markvörslu.

Vörnin var virkilega góð og gekk mjög vel í síðari hálfleik þegar Portúgal lék 7 á móti 6. Á heildina litið gekk vörnin miklu betur gegn þessu liði heldur en gegn hinum útsjónarsömu Slóvenum sem fóru illa með íslensku varnarmennina á dögunum. Lið Portúgals tapaði boltanum ellefu sinnum í leiknum og gefur það ágæta mynd af góðri vörn Íslendinga í dag. 

Portúgal 25:28 Ísland opna loka
60. mín. Ísland tekur leikhlé 15 sekúndur eftir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert