Guðjón Valur Sigurðsson hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir afar farsælan handknattleiksferil en þetta tilkynnti hann á Instagram. Guðjón Valur hefur verið fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handknattleik undanfarin fjögur ár eða allt frá því að Ólafur Stefánsson lagði skóna á hilluna árið 2016. Guðjón Valur verður 41 árs gamall í ágúst en samningur hans við franska meistaraliðið PSG rennur út í sumar.
Guðjón varð Frakklandsmeistari með liðinu á síðustu leiktíð eftir að tímabilið þar í landi var blásið af vegna kórónuveirufaraldsins. Þetta var sjöundi meistaratitill Guðjóns Vals í fjórða landinu. Hann varð danskur meistari með AG Kaupmannahöfn 2012, Þýskalandsmeistari með Kiel 2013 og 2014 og með Rhein-Neckar Löwen 2017. Þá varð hann spænskur meistari með Barcelona 2015 og 2016.
Guðjón Valur er markahæsti landsliðsmaður handboltasögunnar með 1.875 mörk í 364 landsleikjum fyrir hönd Íslands en hann spilaði sinn fyrsta landsleik árið 1999. Hann var lykilmaður í íslenska landsliðinu sem vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 sem og í liðinu sem hafnaði í þriðja sæti á Evrópumeistaramótinu í Austurríki árið 2010.
Guðjón hóf feril sinn með Gróttu og lék einnig mðe Gróttu/KR áður en hann fór til Akureyrar og gekk til liðs við KA árið 1998. Hann fór svo sem atvinnumaður til Essen í Þýskalandi árið 2001. Þar lék hann í fjögur ár, eða til ársins 2005, og gekk svo til liðs við Gummersbach þar sem hann varð meðal annars markakóngur þýsku 1. deildarinnar og varð um leið annar Íslendingurinn til þess að verða markakóngur deildarinnar á eftir Sigurði Sveinssyni.
Árið 2008 gekk hann til liðs við Rhein-Neckar Löwen áður en hann fór til Danmerkur og samdi við AG Kaupmannahöfn árið 2011. Árið 2012 fékk Alfreð Gíslason hann svo aftur til Kiel í Þýskalandi. Þar lék hann í tvö ár áður en hann fór til Barcelona á Spáni. Hann sneri svo aftur til Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi árið 2016 áður en hann samdi við PSG síðasta sumar.
„Jæja, það er komið að þeim tímapunkti sem allt íþróttafólk nær á sínum ferli,“ sagði Guðjón Valur á Instagram. „Eftir 25 ár í meistaraflokki og 21 ár í landsliðinu er loksins kominn tími á að skórnir fari á hilluna. Á svona tímamótum langar mig að þakka öllum sem hafa stutt við bakið á mér í gegnum súrt og sætt. Samherjum, þjálfurum, læknum, sjúkraþjálfurum, liðsstjórum, stuðningsmönnum og öllum hinum, líka mótherjum.
Síðast en ekki síst langar mig að þakka fjölskyldu minni fyrir ómetanlegan stuðning og þá sérstaklega konunni minni og börnunum. Þóra, Ína, Jóna og Jason, þið hafið gert það þess virði að standa í þessu í öll þessi ár. Handboltinn hefur opnað mér heim sem fáum auðnast og ég hefði aldrei ímyndað mér að ég ætti eftir að upplifa þegar ég var ungur gutti í Gróttu. Það sem eftir lifir eru minningarnar, bæði þær sætu og þær sáru, og fólkið sem ég hef kynnst á leiðinni.❤️ Takk fyrir mig, Guðjón Valur,“ bætti Guðjón Valur við á Instagram.