„Ég bjóst við því að vinna með fleiri mörkum í hreinskilni sagt,“ sagði Paulo Pereira landsliðsþjálfari Portúgals í handknattleik við miðilinn Ojogo um sigurinn gegn Íslandi í undankeppni EM á miðvikudaginn.
Portúgal vann nauman 26:24-sigur eftir æsispennandi lokamínútur í Porto og er liðið nú með sex stig eftir þrjá leiki. Ísland er með tvö stig eftir tvo leiki en tvö efstu lið riðilsins komast beint á EM og þau fjögur lið sem ná bestu árangri í þriðja sæti undanriðlanna. Góð staða Portúgals hefur gert það að verkum að Pereira hefur ekki miklar áhyggjur af seinni leiknum gegn Íslandi sem fer fram á Ásvöllum í Hafnarfirði á sunnudaginn.
„Seinni leikurinn skiptir ekki jafn miklu máli, við erum það nálægt sæti á EM að við hugsum meira um að undirbúa okkur fyrir heimsmeistaramótið. Við viljum samt ekki tapa gegn Íslandi,“ sagði Pereira en þjóðirnar mætast aftur í fyrstu umferð HM í Egyptalandi og verður það þriðji leikur liðanna í röð á níu dögum.