Valur er Íslands-og bikarmeistari 2021

Valsmenn eru bikarmeistarar árið 2021.
Valsmenn eru bikarmeistarar árið 2021. Ljósmynd/Óttar Geirsson

Valur lagði Fram að velli í úrslitaleiknum í bikarkeppni karla í handknattleik, Coca Cola-bikarnum, á Ásvöllum í Hafnarfirði í dag 29:25.

Valur sigraði Aftureldingu örugglega í undanúrslitunum í gær 32:21 og Fram lagði Stjörnuna að velli í hörkuleik 28:25. Valsmenn hafa sýnt síðustu tvo daga, og í Evrópuleikjunum gegn Lemgo, að þeir eru mjög sterkir um þessar mundir. 

Valur varð Íslandsmeistari í sumar og vinnur því tvöfalt í ár en bikarkeppninni var frestað síðasta vetur vegna heimsfaraldursins. 

Valsmenn voru ekki með meðvind í allan dag. Fram skoraði sex fyrstu mörkin í úrslitaleiknum þótt ótrúlega kunni að hljóma. Valsmenn voru þó ekki lengi að vinna það upp og tókst að gera það fyrir hlé. Staðan var 12:12 að loknum fyrri hálfleik. 

Valur náði köflum þar sem vörn liðsins var firnasterk en vörnin var einnig geysilega góð gegn Aftureldingu í gær. Þegar best gekk hjá Val í vörninni þá áttu Framarar erfitt með að skapa sér góð færi. 

Þegar leið á leikinn náðu Valsmenn að síga fram úr en ekki voru nema þrettán mínútur eftir þegar Valur náði tveggja marka forskoti í fyrsta skipti í leiknum. 

Landsliðsmarkvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson var valinn besti maður úrslitahelgarinnar af HSÍ en hann varði 19/1 skot í úrslitaleiknum. Björgvin gekk í raðir Vals frá Haukum í sumar og byrjar því af krafti með Val. 

Valur 29:25 Fram opna loka
60. mín. Benedikt Gunnar Óskarsson (Valur) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert