Ömurleg viðbrögð Ungverja við faraldrinum

Björgvin Páll hefur tvívegis greinst með veiruna á Evrópumótinu.
Björgvin Páll hefur tvívegis greinst með veiruna á Evrópumótinu. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Ég held að Ungverjarnir hafi misst tökin á þessu þegar við löbbum inn á hótelið í Búdapest,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson, markvörður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við Kastljós á RÚV í gær.

Björgvin Páll greindist með kórónuveiruna á miðvikudaginn í síðustu viku en losnaði úr einangrun á mánudaginn og var í leikmannahóp liðsins í 23:22-tapinu gegn Króatíu í milliriðli I í Búdapest á Evrópumótinu sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu.

Hann greindist svo aftur með veiruna í gær og er nú kominn í einangrun í Búdapest  í annað sinn síðan Evrópumótið hófst hinn 13. janúar.

„Við fórum inn í okkar „búbblu“ á Grand hótel 2. janúar og þar var allt til fyrirmyndar. Hótelið hérna í Búdapest var fullt af túristum sem voru ekki með grímu og ekki að spritta sig, í bland við einhver handboltalið. Við vissum þá strax í hvað stefndi en við reyndum eftir fremsta megni að spritta okkur og vera með hanska sem dæmi við morgunverðahlaðborðið.

Það kom því engum á óvart þegar fyrstu smitin skutu upp kollinum í leikmannahópnum. Viðbrögð Ungverja við þessum faraldri hafa verið ömurleg og þau bera vott um algjört virðingarleysi gagnvart handboltanum. Seinni hluta mótsins hefur voðalega lítið breyst en allt utanumhald er hræðilegt. Það virðist enginn vita neitt og allir þessir prófessorar frá EHF og sérfræðingar ráða ekkert við stöðuna,“ bætti Björgvin Páll við í samtali við Kastljós.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert