Ísland vann sannfærandi 37:25-útisigur á Eistlandi í undankeppni EM karla í handbolta í Tallinn í dag. Íslenska liðið er með fjögur stig eftir tvo leiki í góðum málum í 3. riðli, en tvö efstu liðin fara á Evrópumótið í Þýskalandi eftir tvö ár og fjögur af átta liðum sem enda í þriðja sæti í sínum riðli.
Íslenska liðið var frekar lengi í gang, því staðan var 6:6 þegar tíu mínútur voru liðnar. Þá hrukku íslensku leikmennirnir í gang, því staðan var 11:7 þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður.
Ísland hélt áfram að bæta í forskotið það sem eftir lifði hálfleiksins og að lokum skildu sjö mörk liðin að í hálfleik, 20:13.
Vörn Íslands var að þvinga eistlenska liðið í erfiðar aðgerðir í sókninni og því töpuðu heimamenn mikið af boltum. Þegar þeir náðu skotum á markið skoruðu þeir hins vegar oftar en ekki, þar sem markverðir Íslands náðu sér alls ekki á strik.
Hinum megin gekk sóknin vel og rétt eins og gegn Ísrael á miðvikudag var Gísli Þorgeir Kristjánsson duglegur að skapa færi fyrir liðsfélaga sína. Bjarki Már Elísson var líka að finna sig vel og skoraði bæði úr hraðaupphlaupum og færum í horninu.
Gerði hann sjö mörk í hálfleiknum og var markahæstur. Viggó Kristjánsson gerði fjögur, þar af tvö af vítalínunni, og Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði þrjú.
Íslenska liðið var áfram með öll tök á leiknum í seinni hálfleik og bætti í forskotið örugglega. Var sigurinn að lokum afar sannfærandi og margir leikmenn sem komust á blað. Þá lék Björgvin Páll Gústavsson mun betur í markinu í seinni hálfleiknum.
Bjarki Már Elísson endaði markahæstur með ellefu mörk og Sigvaldi Björn Guðjónsson gerði sex. Viggó Kristjánsson kom þar á eftir með fjögur mörk. Björgvin Páll Gústavsson varði níu skot, þar af átta í seinni hálfleik.