Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var langt frá því að vera ánægður með leik sinna manna í tapi FH gegn Haukum í 8-liða úrslitum bikarkeppni karla í handknattleik í kvöld.
„Það var klárlega markmiðið að fara í höllina þannig að þetta eru mikil vonbrigði,“ sagði Sigursteinn í samtali við mbl.is eftir leik.
Fyrir fram spáðu flestir FH sigri í kvöld. Hvað gerðist?
„Það er nú samt þannig að staða í deildinni skiptir engu máli þegar þessi lið mætast og í dag lendum við á eftir þeim og erum að elta Hauka allan leikinn.
Það má bara ekki gefa Haukum sjálfstraust í þessum leikjum. Þá fer þetta svona,“ sagði hann.
FH kemst í 0:2 og fær síðan sex mörk á sig í röð. Brotnaði FH liðið strax í upphafi?
„Varnarlega náum við aldrei okkar leik og á sama tíma erum við að klikka á mjög góðum færum í sókninni.
Fyrir vikið lendum við í þessum eltingarleik sem ég talaði um áðan og það tekur bara mikla orku,“ útskýrði Sigursteinn.
Þannig að það er vörnin sem verður ykkur að falli í kvöld?
„Já, það má segja það. Við bara töpuðum fyrir góðu Haukaliði í kvöld og vorum á sama tíma alls ekki nógu góðir.“
FH-liðið var samt mjög ólíkt sér í kvöld. Eru leikmenn þreyttir eða komnir með hugann við Evrópuleikina sem eru fram undan?
„Nei, við undirbjuggum okkur vel fyrir leikinn og ég get ekki sagt að leikmenn séu þreyttir. Ég á enga haldbæra skýringu á þessu en lið virka oft þreytt þegar þau eru að elta og við vorum að elta í kvöld.“
Næsta verkefni eru tveir Evrópuleikir í Slóvakíu á föstudag og laugardag. Hvernig meturðu möguleika FH í þeim leikjum?
„Við erum að fara í erfitt verkefni enda gefur það augaleið þegar við erum að spila báða leikina úti. En við ætlum okkur auðvitað sigur þar eins og í öllum öðrum verkefnum sem við förum í,“ sagði Sigursteinn að lokum í samtali við mbl.is.