Komust loks frá Færeyjum

Elías Ellefsen á Skipagötu og liðsfélagar hans í Færeyjum eru …
Elías Ellefsen á Skipagötu og liðsfélagar hans í Færeyjum eru loks á leið til Skopje. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Færeyska karlalandsliðið í handknattleik komst loks ásamt fylgdarliði frá Færeyjum og er á leið til Skopje í Norður-Makedóníu þar sem liðið á fyrir höndum mikilvægan leik í umspili um laust sæti á HM 2025 síðdegis á morgun.

Færeyski miðillinn Roysni.fo greinir frá því að liðið hafi farið í loftið klukkan 15 í dag þar sem var flogið með það til Billund í Danmörku.

Þaðan flaug liðið með einkaflugvél beint til Skopje og er ráðgert að hópurinn verði kominn upp á hótel þar í borg í kringum miðnætti.

Erfiðlega hafði gengið að komast frá Færeyjum og lagði hópurinn af stað sólarhring síðar en áætlað var vegna erfiðra aðstæðna í Vogum; svartaþoku og óhagstæðs hliðarvinds.

Eru sjö mörkum yfir

Fær­ey­ing­ar unnu fyrri leik­inn á heimavelli með sjö mörk­um, 34:27, og freista þess að komast á heimsmeistaramót í fyrsta sinn í sögunni.

Síðari leikurinn í Skopje hefst klukkan 17 á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert