Hafdís frábær í öllum leikjunum

Elín Rósa Magnúsdóttir með boltann í kvöld.
Elín Rósa Magnúsdóttir með boltann í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er frábær tilfinning og við höfum unnið að þessu allt tímabilið. Þetta er það sem maður vill uppskera í lokin,“ sagði Elín Rósa Magnúsdóttir, leikstjórnandi Vals, eftir að liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik í kvöld.

Valur er þrefaldur meistari á tímabilinu eftir að hafa einnig staðið uppi sem bikarmeistari og deildarmeistari.

Hvernig fór Valur að því að vinna alla titlana sem í boði voru á tímabilinu?

„Ég held að það sé bara það að halda lágum prófíl eins og Gústi [Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari] myndi orða það. Það hefur verið svolítið ríkjandi hjá okkur. Það þýðir ekkert að fara fram úr sér þó við séum með gott lið.

Það er alveg hægt að vera með frábæra leikmenn og spila hræðilega. Við höfum náð að spila frekar vel á þessu tímabili og erum ótrúlega stoltar af því,“ útskýrði Elín Rósa í samtali við mbl.is.

Spurð hvað hafi skapað sigurinn á Haukum í þriðja leiknum í kvöld sagði hún:

„Við byrjuðum alls ekki nógu vel en Gústi tekur síðan leikhlé sem breytir aðeins hlutunum fyrir okkur. Við þéttumst í vörninni og Hafdís [Renötudóttir markvörður] er búin að vera frábær í öllum leikjunum.

Hún skilar alltaf sínu og hélt okkur alltaf inni í leikjunum þó vörnin væri kannski ekki alltaf að halda. Svo þegar vörnin heldur verður allt hitt auðveldara.“

Hafdís varði 17 skot í kvöld og var valin besti leikmaður úrslitakeppninnar.

Hafdís Renötudóttir var valin besti leikmaður úrslitakeppninnar.
Hafdís Renötudóttir var valin besti leikmaður úrslitakeppninnar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert